Aðalsteinn Jónsson SU 11 var væntanlegur í gær úr síðustu veiðiferð á síld í norsku lögsögunni og þar með er kvóti félagsins í norsk-íslensku síldinni búinn.
Mjög vel gekk að veiða síld og frysta í norskri lögsögu og í síldarsmugunni í október og landaði Aðalsteinn samtals um 12.800 tonnum af norsk-íslenskri síld á árinu.
Aðalsteinn fiskaði rúm 4.200 tonn af makríl á árinu í bland við norsk íslensku síldina en um 1.200 tonn af makrílnum var frystur um borð.
Jón Kjartansson aflaði 8.300 tonna af norsk-íslensku síldinni og tæpra 6.200 tonna af makríl sem meðafla á yfirstandandi vertíð sem var mikil búbót fyrir útgerðina.
Eskja á enn eftir að veiða töluvert af kolmunna og vonandi verður hægt að senda skipin á veiðar í desember ef einhver kraftur verður í veiðunum, segir á heimasíðu Eskju.