Jón Kjartansson gamli, áður Hólmaborg SU og þar áður Eldborg HF, það kunna uppsjávarskip útgerðarfélagsins Eskju á Eskifirði, fer í pottinn illræmda í síðasta lagi á næstu vormánuðum. Hætt var að gera skipið út til veiða árið 2019 og þykir ekki svara kostnaði að gera það upp. Baldur Marteinn Einarsson, útgerðarstjóri Eskju, bendir á að fyrirtækið geri út uppsjávarskipin Jón Kjartansson SU 11, Aðalstein Jónsson SU 11 og Guðrúnu Þorkelsdóttur SU 211 á móti Brimi hf. Miðað við kvótastöðu Eskju í uppsjávarfiski dugi þessi skip til að ná kvótanum.
Gamall og lúinn
Jón Kjartansson gamli er náttúrulega bara gamall og lúinn og þyrfti að snýta honum hressilega ef ætlunin væri að gera hann út á ný. Hann er kom[1]inn á þann stað að hann verður líklega seldur í brotajárn. Það er eiginlega búið að fullreyna það að selja hann,“ segir Baldur.
Gott að koma út á núlli
Berist engin tilboð í skipið verða því örlög þess að fara í bræðslupottinn. Líklega verði ekki reynt að koma skipinu yfir haf yfir harðasta veturinn þegar allra veðra er von svo sennilega fari hann ekki fyrr en í vor. Víða er tekið á móti skipum í niðurrif, eða allt frá Færeyjum til Tyrklands. Baldur segir að það fáist bara krónur og aurar fyrir skipið og varla að það sé hægt að komast út á núlli við svona framkvæmdir. Mikill kostnaður fylgi því að draga skipið yfir hafið og frekar sé litið á þetta sem hreinsun og endurvinnslu. Það fylgi því líka töluverður kostnaður að hafa skip sem ekki eru í notkun við bryggju.
Eldborg HF
Jón gamli Kjartansson var smíðaður sem Eldborg HF 13 árið 1978 fyrir samnefnda útgerð í Hafnarfirði. Hún var keypt til Eskifjarðar 1988 og fékk þá nafnið Hólmaborg SU 11. Þegar Eskja keypti Aðalstein Jónsson SU 11 árið 2006 fékk Hólmaborgin nafnið Jón Kjartansson SU 111 sem breyttist í SU 311 þegar nýr Jón Kjartansson SU 111 var keyptur frá Skotlandi. Eskja á Guðrúnu Þorkelsdóttur SU 211 til helminga á móti Brimi hf. og gerir auk þess út uppsjávarskipin Jón Kjartansson SU 111 og Aðalstein Jónsson SU 11.
19% af kolmunnakvótanum
„Við erum með rúm 19% af kolmunnakvótanum. Það er mikið í þeim kvóta og við erum að berjast við að reyna að veiða kolmunnann núna. Svo bíða allir eftir því hvort það verði leyfðar loðnuveiðar eður ei. Við erum ágætlega settir með skipakost til þess að ná þessum kvóta og jafnvel þótt það kæmi loðnukvóti. Eskja er með rúm 8% hlutdeild í loðnu og þeim mun stærri loðnukvóti því stærra verður verkefnið. En við ráðum alveg við þetta á þessum tveimur og hálfu skipi miðað við hvernig staðan hefur verið undanfarin ár. Við erum svo sem ekki með mjög stór skip en þau bera hvort um sig um 2.200 tonn og Guðrún Þorkelsdóttir 1.500 tonn. Þetta hefst því allt,“ segir Baldur.
Kolmunnakvótinn var aukinn umtalsvert fyrir yfirstandandi ár og er alls 306.000 tonn þegar dregin hafa verið frá 5,3%, eða rúm 17.000 tonn í afla- og byggðakvóta. Síldarvinnslan er með tæp 30% kvótans, 91.500 tonn, Brim 64.000 tonn og Eskja 59.000 tonn. Þessi þrjú fyrirtæki eru því með um 70% alls kvótans.
Óvissa um loðnuna
Baldur segir að menn renni blint í sjóinn hvort það verði loðnuvertíð. Menn voni það besta án þess að missa sig úr bjartsýni. Vonandi verði þó einhverjar veiðar leyfðar. Engar fregnir hafi borist úr loðnuleit undanfarinna daga en miðað við leitarferlana vonist menn til þess að hægt verði að nurla niðurstöðunum saman í einhvern kvóta.
„Þetta virðist frekar hefðbundinn leiðangur. Ásgrímur Hall[1]dórsson fór austast og vel út fyrir kant. Menn ættu því að vera búnir að dekka þetta hefðbundna svæði. En við sjáum að þeir hafa örugglega ekki komist jafn norðarlega og þeir vildu út af ís. Þetta gæti haft áhrif á niðurstöður mælinga varðandi þann hluta göngunnar sem kemur vestan að. Þeir hljóta að fara að segja okkur einhverjar fréttir af þessu og varla síðar en á föstudaginn myndi ég halda. Vonandi fáum við góðar loðnufréttir á bóndadag. Það myndi ekki skemma fyrir neinu þorrablóti,“ segir Baldur.