Rekstrarfélag Eskju ehf. hefur selt bolfiskvinnslu við Óseyrarbraut í Hafnarfirði og hættir þar rekstri. Félagið er dótturfélag Eskju hf. á Eskifirði. 20 manns starfa við bolfiskvinnsluna. Þetta kemur fram í frétt á vef RÚV.
Kaupandinn er Fiskvinnslan Kambur ehf. í Hafnarfirði sem mun flytja starfsemi sína í húsnæðið á næstu mánuðum. Þessar breytingar hafa í för með sér að öllum starfsmönnum bolfiskvinnslunnar verður sagt upp. Hinrik Kristjánsson, framkvæmdastjóri Kambs, segir óvíst hversu margir starfsmenn Eskju verði ráðnir á ný.
Eskja segir að ástæða sölunnar sé breytt rekstrarumhverfi í vinnslu á bolfiski og breyttar áherslur í rekstri fyrirtækisins með tilkomu nýs uppsjávarfrystihúss á Eskifirði. Eskja muni í kjölfarið einbeita sér enn frekar að uppsjávarveiðum og vinnslu, ásamt frekari uppbyggingu á Eskifirði, segir ennfremur á vef RÚV.