Gróðursetningu á að ljúka vorið 2023 og með verkefninu verða til vottaðar kolefniseiningar sem tryggja ábyrga kolefnisbindingu á móti samsvarandi losun vegna starfsemi Eskju. Með þessu verður Eskja fyrsta sjávarútvegsfyrirtækið sem ræðst í ábyrga kolefnisjöfnun samkvæmt kröfum Loftslagsráðs, segir í frétt á heimasíðu Skógræktarinnar.

Hlutverk Skógræktarinnar er að gera ræktunaráætlun fyrir svæðið, verkefnalýsingu fyrir kolefnisverkefnið ásamt kolefnisspá og kostnaðaráætlun til 50 ára. Verkefnið skal fullnægja kröfum Skógarkolefnis þannig að það sé tækt til vottunar óháðs vottunaraðila til skráningar í Loftslagsskrá Íslands. Loks veitir Skógræktin aðra ráðgjöf sem Eskja kann að óska eftir við þróun verkefnisins.

Gert er ráð fyrir að undirbúningi ljúki fyrir árslok og framkvæmdir hefjist næsta vor með undirbúningi lands. Gróðursett verður í byrjun og lok næsta sumars og gróðursetningu lýkur vorið 2023. Þá verður fullgróðursett í svæðið og við tekur vaxtartími skógarins með reglulegum úttektum. Gangi allt að óskum verða fyrstu vottuðu einingarnar til að fimm árum liðnum frá því að gróðursetningu lýkur.

Eskja sérhæfir sig í veiðum og vinnslu á uppsjávarfiski sem ýmist eru frystar eða framleitt úr hágæða fiskimjöl og lýsi.

Mynd: Gunnlaugur Guðjónsson, sviðstjóri rekstrarsviðs Skógræktarinnar, Páll Snorrason, framkvæmdastjóri rekstrar- og fjármálasviðs Eskju, Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri, Erna Þorsteinsdóttir, stjórnarformaður Eskju, og Sigrún Ísaksdóttir, skrifstofustjóri hjá Eskju. Aðsend mynd