Evrópusambandið hefur ákveðið niðurskurð á kvótum í þorski og ýsu árið 2010 en banni á veiðum á ansjósum hefur verið aflétt.
Þorskkvótinn verður skorinn niður um 15-30%, misjafnt eftir svæðum. Undantekningar eru við veiðar á þorski við Vestur-Skotland og á hafinu vestur og suðvestur af Bretlandi og suður af Írlandi (Celtic Sea).
Kvótar í nokkrum tegundum eru auknir, þar á meðal skarkola (um 14%) og síld um 72% í Celtic Sea.
Ansjósuveiðar verða leyfðar í Biscayflóa en bann við veiðunum var sett á 2005. Þetta eru góðar fréttir fyrir franska og spánska togara.
Þá verður tekin upp sú nýbreytni í fiskveiðistefnu ESB að skipum verður heimilt að veiða 5% meiri afla ef þau koma fyrir eftirlitsmyndavélum um borð. Um er að ræða 3 myndavélar sem einkum eiga að fylgjast með því hvort brottkast eigi sér stað.