Á fundi strandríkja í desember um stjórn kolmunnaveiða á árinu 2015 var komist að samkomulagi um að heildarkvótinn skyldi verða 1.260 þúsund tonn. Þar af eru lögð til hliðar tæplega 100 þúsund tonn til handa Rússlandi og Grænlandi. Hins vegar náðist ekki eining um skiptingu kvótans milli strandríkjanna.

Í norska sjávarútvegsritinu Fiskeribladet/Fiskaren segir að Norðmenn og ESB deili hart um hlut Noregs. Samkvæmt fyrri samningi var hlutur Noregs 26,25% sem myndi gefa 330.000 tonn á þessu ári. Í samkomulaginu fólst aðgangur norskra kolmunnaskipa að ESB-lögsögunni. Aðganginn segjast Norðmenn hafa keypt með því að lækka hlut sinn úr 35% í rúm 26%. Nú vilji ESB að Noregur minnki enn hlut sinn fyrir að mega veiða kolmunna í ESB-lögsögu. Þessu líkir Audun Maråk framkvæmdastjóri Samtaka norskra útvegsmanna (Fiskebåt) við það að selja sömu vöruna tvisvar, sem ekki komi til greina af hálfu Norðmanna.

Norska sjávarútvegsráðuneytið hefur þegar gefið út kolmunnakvóta Norðmanna fyrir árið 2015 og gengur þá út frá 35% hlutdeild þeim til handa sem er um 400.000 tonn. Þar til viðbótar koma 100.000 tonn sem Norðmenn fá með kvótaskiptum við ESB þannig að heildarkvóti þeirra er rétt um 500.000 tonn. Sá kvóti mun gilda þar til um annað verður samið. Meðan Norðmenn fá ekki aðgang að ESB lögsögunni fyrir kolmunnaveiðar þurfa þeir að bæta sér það upp með veiðum á alþjóðlegu hafsvæði auk eigin lögsögu.

Viðræður um stjórn kolmunnaveiða munu halda áfram í lok þessa mánaðar.