Næstum helmingur af neyslu mikilvægustu hvítfisktegundanna í heiminum fer fram í ríkjum Evrópusambandsins. Þegnar ESB borða svipað mikið af fiski og fyrir 20 árum eða 1,5 milljónir tonna en veiða sjálfir helmingi minna. Mismunurinn er fluttur inn frá öðrum löndum.

Þetta kom fram á ráðstefnunni North Atlantic Seafood Forum í Osló í síðustu viku í erindi Jan Trollvik frá Norska sjávarafurðaráðinu.  Þar var upplýst að veiðar ESB-ríkjanna á hvítfiski hefðu minnkað úr 1,5 milljónum tonna í 750.000 tonn á nefndu 20 ára tímabili. Þetta hefði kallað á síaukinn innflutning á hvítfiski.

Þorskur er nú sem fyrr mikilvægasta hvítfisktegundin en á eftir koma alaskaufsi og pangasíus. Til samanburðar er nefnt að árið 1992 hafi lýsingur, ufsi og karfi komið næst þorski að mikilvægi.

Á síðustu 20 árum hefur mesta aukningin orðið í alaskaufsa eða úr 50.000 tonum árið 1992 til 300.000 tonna árið 2008. Innflutningur á pangasíus hófst ekki að neinu ráði fyrr en árið 2004 og komst hann í 240.000 tonn árið 2009 en hefur fallið í 189.000 tonn síðustu tvö árin. Framleiðslan á pangasíus í heiminum öllum jókst úr 100.000 tonnum árið 2002 til 1,2 milljóna tonna árið 2008.

Mesta aukningin á neyslufiski á þessu tímabili hefur hinsvegar orðið í laxi eða úr 100.000 tonnum í eina milljón tonna. Laxinn er í samkeppni við hvítfiskinn og hefur oft vinninginn þegar verðið er nógu lágt.