Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins mun ekki leggja til við aðildarríkin að leyft verði að framselja veiðikvóta milli ríkjanna, að því er Maria Damanaki sjávarútvegsstjóri ESB hefur tilkynnt.

Nú stendur yfir endurskoðun á sameiginlegri sjávarútvegsstefnu ESB og meðal þeirra hugmynda sem uppi hafa verið er að leyfa framsal aflaheimilda yfir landamæri þannig að útgerðir í einu ríki geti annað hvort keypt til sín eða selt frá sér aflaheimildir til útgerðar í öðru landi.

Ljóst er samkvæmt þessu að framkvæmdastjórn ESB mælir ekki með þessum kosti. Sjávarútvegsstjórinn segir að hefðbundin veiðiréttindi aðildarríkjanna verði virt enda sé vilji til þess að viðhalda hinum hlutfallslega stöðugleika sem kveðið er á um í núgildandi fiskveiðistefnu. Þessu ákvæði verði ekki breytt.

Damanaki sagði að lagafrumvörp sem tengdust endurbótum á sjávarútvegsstefnunni yrðu lögð fram næsta vor og kæmu þau þá til umræðu og afgreiðslu í ráðherraráði ESB og í Evrópuþinginu.

Frá þessu er skýrt á sjávarútvegsvefnum fis.com