Fjöldi manns fylgdist með siglingu björgunarskipsins Þórs úr Herjólfi síðastliðinn laugardag þegar því var siglt frá Landeyjahöfn til heimahafnar í Vestmannaeyjum. Þar tók svo á móti skipinu enn fleiri, jafnt heimamenn sem boðsgestir. Guðni Grímsson, formaður björgunarbátasjóðs Vestmanneyja, var við stjórnvölinn.

„Við erum alveg í skýjunum með nýja bátinn. Hann svínvirkar og fer vel með mannskapinn í öldu. Nú er framundan nýtt átak í að safna fyrir næstu bátum,“ segir Guðni.

Þetta er fyrsta skipið af þremur sem Landsbjörg hefur gengið frá kaupum á en um er að ræða stærsta fjárfestingaverkefni Slysavarnafélagsins Landsbjargar til þessa. 142,5 milljón króna styrkur frá Sjóvá fer til smíði á þessum fyrstu þremur björgunarskipum en til stendur að endurnýja öll 13 björgunarskip félagsins. Með skipunum styttist viðbragðstími Landsbjargar á sjó um allt að helming í flestum tilfellum. Hvert skip kostar 285 milljónir og samningur liggur fyrir um að ríkissjóðir greiði helming í fyrstu sjö skipunum. Vestmannaeyjahöfn styrkti björgunarbátasjóðinn með 35 milljónum króna vegna Þórs og auk þess barst fjöldi gjafa frá velunnurum við komuna til Vestmannaeyja um síðustu helgi. Áfram er unnið að fjármögnun 10 björgunarskipa til viðbótar enda er það markmið Landsbjargar að endurnýja öll þrettán björgunarskip sín.

Á 29 mílum í úfnum sjó

Lagt var í hann frá Reykjavík um miðjan dag á föstudag siglt til Landeyjahafnar. Siglingin fyrir Reykjanesið til Landeyjahafnar tók tæpar fimm klukkustundir. Það var svo á hádegi á laugardag sem nýja björgunarskipinu var siglt til Vestmannaeyja.

„Við sáum það á siglingunni til Eyja að í leiðindasjólagi er minnsta mál að sigla þessu skipi jafnvel á 29 mílum í svona veðri. Ganghraðinn á gamla Þór er í kringum 20 mílur og sá nýi gengur mest á 32 mílum og hægt að sigla honum í verra sjólagi. Við erum styst allra björgunarsveita frá Reynisfjöru en höfum verið um tvo tíma á leiðinni þangað og ekki náð á staðinn í útköllum áður en þyrlan er komin. Við gætum hugsanlega verið einn tíma á leiðinni á nýja Þór og það getur skipt sköpum í björgun mannslífa. Við erum svo líklega um korter á leiðinni frá Landeyjum til Eyja,“ segir Guðni sem auk þess að gegna formennsku í björgunarbátasjóð Vestmannaeyja, er í fullu starfi sem vélstjóri á uppsjávarskipinu Svani RE.

Guðni Grímsson, formaður björgunarbátasjóðs Vestmannaeyja, stýrði Þór til hafnar í Eyjum.
Guðni Grímsson, formaður björgunarbátasjóðs Vestmannaeyja, stýrði Þór til hafnar í Eyjum.
© Óskar P. Friðriksson (Óskar P. Friðriksson)

40-50 manns í neyð

Þór er með sex fjaðrandi sætum fyrir áhöfn og auk þess eru sæti til viðbótar fyrir 20 manns. Í neyð er hægt að koma 40-50 manns í skipið. Tveir átta manna björgunarbátar eru í skipinu sem er sjálfréttandi, þannig að ef því hvolfir réttir það sig við sjálft. Dráttargetan er 4,9 tonn.

Gamli Þór kom nýr frá Noregi til Eyja árið 1993 og er því að verða 30 ára gamall. Til stendur að selja hann. Ólíkt öðrum björgunarsveitum stóð Björgunarfélag Vestmannaeyja óstutt en með stuðningi velviljaðra að því að kaupa gamla Þór á sínum tíma. Það þóttu háleit markmið á sínum tíma, ekki síður en þegar ákveðið var að fá nýjan Þór til Eyja árið 2017 fyrir 285 milljónir króna. Margir efuðust um að það yrði að veruleika og þess vegna var það björgunarsveitarmönnum í Eyjum enn meira fagnaðarefni að taka á móti skipinu um síðustu helgi.