Hafnsögubáturinn var eini báturinn sem talinn var einhver tilgangur í að flytja,“ segir Sigurður Arnar Kristmundsson sem fór í miðju eldgosinu í Grindavík á sunnudag til bæjarins að forða hafnsögubátnum undan hamförunum.
Með Sigurði í för var hafnsögumaðurinn Þröstur Magnússon. Til að koma þeim inn í Grindavík voru þeir látnir síga niður úr þyrlu Landhelgisgæslunnar niður í varðskipið Þór sem hefur verið til taks utan við höfnina og þaðan var þeim siglt í léttabáti í land.

„Bærinn er náttúrlega lokaður og þetta var eiginlega eina leiðin með þessum tilfæringum til að komast að bátnum. Okkur var boðið upp á þetta og fyrir það erum við ákaflega þakklát,“ segir Sigurður sem neitar því að beygur hafi verið í þeim félögum að láta skjóta sér í land inn í þá miklu óvissu sem var í Grindavík þennan sunnudag.
Heppinn að fá verkefni
„Höfnin er ekki nálægt þessu svæði þannig lagað séð og hafnarsvæðið er kannski síst í hættu. Þetta er auðvitað ógnvekjandi en við fundum ekki mikið fyrir því,“ segir Sigurður. Það hafi verið gott að fá tækifæri til að geta gert gagn.

„Það eru aðrir sem eru ekki svona heppnir að fá svona verkefni. Annars væri maður
bara með sjálfum sér með augun á skjánum allan daginn. Ég var í þannig stöðu að horfa bara á skjáinn og hreyfa hvorki legg né lið þar til þetta verkefni kom upp.“
Þeir Sigurður og Þröstur sigldu síðan hafnsögubát Grindvíkinga til Þorlákshafnar. „Við ætlum að fá að geyma hann þar þangað til við fáum að koma aftur,“ segir Sigurður vongóður um að lífið í Grindavík geti færst í eðlilegt horf að nýju.
Þarf að hugsa hratt
„Ég heyrði í útgerðarmönnum og þeir hafa fullan hug á því að um leið og fært er í bæinn að starta saltfiskvinnslu. Það er alveg ótrúlega gott veganesti inni í framhaldið hjá okkur að vita að fyrirtækin eru alveg einhuga um að starta þessu upp um leið og hægt er,“ segir Sigurður.
Vatnsleysi í Grindavík er alvarlegt vandamál sem þarf að leysa og áður en gengið var frá Fiskifréttum til prentunar í gær hafði tekist að koma heitu vatni á vesturhluta bæjarins.
„Ég vona að menn hugsi hratt. Það þarf auðvitað að koma rafmagni og vatni á húsin og íbúðirnar,“ segir Sigurður en viðurkennir að hann viti ekki hvort slíkt sé gerlegt á aðeins örfáum dögum.
Áfram fullum fetum
„Ég held að það sé alveg á tæru að ef einhverjir geta það þá getum við Íslendingar það. Ég ætla að leyfa mér að vona að það verði hægt,“ segir Sigurður. Honum hafi skilist að byrja eigi á því að keyra einhverjar ljósavélar og koma rafmagni í gang.
„Svo vinna þeir þetta bara hratt og örugglega kolli af kolli. Þeir gera það hratt sem þeir geta strax og fara svo í það sem tekur lengri tíma. Ég hef fulla trú á því að menn gangi vasklega til verks,“ segir hafnarstjórinn og undirstrikar að orrustunni um Grindavík sé ekki lokið.
„Þetta er eins og í hnefaleikum. Það eru tólf lotur og núna erum við í sjöundu lotu. Við eigum nokkrar lotur eftir en við stöndum alltaf upp. Þótt við séum nefbrotin og það gangi á ýmsu þá held ég að menn séu sammála um það að halda áfram fullum fetum. Nú verður bara tíminn að leiða í ljós hvort við ráðum við verkefnið eða ekki.“
