„Við erum í restarleiðöngrum,“ segir Þorgeir Guðmundsson, skipstjóri á Verði ÞH, togara Gjögurs hf.

Tvær síðustu landanir Varðar hafa verið á þorski og karfa í Grundarfirði og þaðan lagði togarinn upp á sunnudagskvöld.

Þegar rætt er við Þorgeir í gær, þriðjudag, er Vörður á veiðum á Vestfjarðamiðum.

„Okkur vantar helst að taka aðeins meiri karfa. Við þurfum að sinna vinnslunni á Grenivík aðeins líka. Við erum að landa tvisvar í viku og þetta verður svolítið ódrjúgt,“ segir Þorgeir. Þeir hafi klárað ýsuna í síðustu viku. „Þá fengum við út við Eldeyna og lönduðum í Grindavík.“

Frá Vík og Vestur

Aðspurður um veiðina á kvótaárinu sem er að klárast segir Þorgeir hana hafa verið svipaða og áður. „En mér finnst einhvern veginn vera dálítið erfiðara að eiga við þorskinn. Þetta hefur hafst alltaf en við höfum ekki verið að lenda í neinni ofveiði. Þetta hefur bara sloppið,“ segir hann.

Veiðisvæði Varðar hefur verið allt frá Vík og norður á Vestfjarðamið. „Á vertíðinni vorum við aðallega við Vestmannaeyjar og þar sunnan  við Þorlákshöfn. Í maí færðum við okkur hérna norðar  við Eldeyna og norður á Breiðafjörð og þar. Við erum hálfgerðir flækingar,“ segir Þorgeir.

Spurning með ýsuna

Nánar um þorskinn og lakari veiði á honum segir Þorgeir stöðuna hafa verið svipaða síðustu tvö eða þrjú árin. „Mér fannst þetta vera skárra á árum áður þegar maður var alltaf að passa sig að fá ekki of stór höl. Það hefur verið auðveldara að eiga við það núna, maður hefur ekkert verið að lenda í svoleiðis veiði,“ segir hann.

Næst er ætlunin að landa í Grundarfirði en þegar rætt er við Þorgeir er bilun í kælikerfinu á millidekkinu og staðan þess vegna óljós. „Ég veit ekki hvort við þurfum að fara í land eða hvort við náum að klára þennan túr alla vega. Við þurfum að sjá hvað þeir geta galdrað fram vélstjórarnir.“

Varðandi nýtt kvótaár og framhaldið segir Þorgeir sér lítast ágætlega á það. „Það er bara með ýsuna, hvort hún standi undir sér á næsta ári. Það varð svolítil aukning á ýsukvóta og við erum búnir að redda okkur fyrir horn,“ segir Þorgeir Guðmundsson.