Björgólfur Jóhannsson, stjórnarformaður Íslandsstofu, sagði á Sjávarútvegsráðstefnunni í síðustu viku að spurningin sem menn stæðu frammi fyrir væri í raun alltaf sú sama, þ.e.a.s. hvernig Íslendingar aðgreini sig á markaði í þeim tilgangi að fá hærra verð fyrir sínar hágæðavöru. Fjöldi þjóða framleiði þorsk og sérstaða Íslands úti á markaðnum sé engin.

„Mér finnst að íslenskur sjávarútvegur í gegnum árin og áratugina hafi ekki sett það fjármagn í sölu- og markaðsstarf sem þarf til þess að komast lengra inn í virðiskeðjuna. Við höfum fjárfest mikið í veiðum og þróun þeirra. Tækniframfarir hafa orðið miklar, meðferð á afla bæði við veiðar og geymslu tekið stórstígum framförum. Þar erum við í fararbroddi í heiminum. Eins er það með vinnsluna þar sem fjárfestingar hafa verið miklar. Markmiðið með þessum fjárfestingum er að leita eftir lækkun kostnaðar sem og að þróa vöruna nær því sem markaðurinn óskar eftir. En það er hvergi minnst á markaðsmál. Við erum hráefnisland eins og staðan er núna að mínu mati. Við náum ekki þeirri sérstöðu sem við eigum að stefna að. Það gerum við fyrst og fremst með því að leggja áherslu á gæði vörunnar þannig að kaupendur séu reiðubúnir til þess að greiða hærra verð ef fiskurinn er frá Íslandi,“ sagði Björgólfur.

Tækifæri til staðar

Hann sagði tækifærin til staðar. Íslenski þorskurinn væri gæðavara og sjálfbærni í fiskveiðum væri óumdeilanleg og rekjanleikinn til staðar. Þessu þurfi að koma á framfæri. Ávinningurinn af því gæti orðið mikill. Útflutningsverðmæti þorsks séu á bilinu 80 til 100 milljarðar á ári og drjúgar viðbótartekjur yrðu við hvert prósentuhlutfall í hærra verði.

Einungis væri hægt að koma þessum skilaboðum til skila með því að komast nær neytandanum. Einungis þannig verði búin til eftirspurn sem skili sér í hærra verði. Þetta verði best gert í samstarfi aðila þar sem Ísland er notað sem beita til að ná árangri.

„Og við beitum frumlegum og nýstárlegum aðferðum í markaðssetingu. Við höfum séð þessa aðferð virka vel í öðrum greinum. Inspired by Iceland verkefnið er gott dæmi um hvaða árangri er hægt að ná þegar allir leggjast á eitt og róa í sömu átt.“