„Ég veit til þess að fyrirtæki úr Grindavík hafa bæði verið að fá aðstöðu hér og spyrjast fyrir,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi.
Á mánudaginn kynnti ríkisstjórnin áform um að gera Grindvíkingum fjárhagslega kleift að koma undir sig húsnæði til lengri tíma utan heimabæjar síns. Grindvísk fyrirtæki gætu hugsanlega flutt sig um set.
„Við tókum strax þá afstöðu að lýsa okkur viljug til að vinna með fyrirtækjunum á þeirra forsendum. Svo fremi sem frumkvæðið liggi hjá þessum fyrirtækjumerum við tilbúin til að vinna meðþeim og stytta þeim leiðina einsog við getum í þessu,“ segir Elliði.
Mikið til af lóðum
Eðli málsins samkvæmt segir Elliði ef til vill ekki mikið af húsum sem sé hægt að ganga beint inn í með atvinnustarfsemi í Þorlákshöfn.

„En hins vegar erum við bæði með mikið af lóðum og húsnæði sem auðvelt er laga að þörfum þessara fyrirtækja – og það er kannski það sem við erum fyrst og fremst að horfa í núna,“ segir bæjarstjórinn og bendir á að málið tengist einnig spurningum uminnviði eins og orku, vatn og fleira. „En ég held að það séu flest teikn á lofti um það að við eigum að geta verið fyrirtækjum úr Grindavík innanhandar ef þau leita eftir því.“
Einnig segir Elliði Ölfus eiga lóðir fyrir íbúðarhús. „Bæði erum við með tilbúnar lóðir nú þegar og talsvert af lóðum sem við getum komið í framkvæmdastað á tiltölulega skömmum tíma – og höfum verið að fá fyrirspurnir þar að lútandi,“ segir hann.
Sami hrynjandinn í Þorlákshöfn og Grindavík
„Maður finnur það líka á þeim Grindvíkingum sem hafa verið að hafa samband við okkur að þau eru svolítið að leita í samfélag sem líkist því sem þau þekkja og Þorlákshöfn er ekki bara nágrannabær Grindavíkur heldur eiga þau mjög margt sameiginlegt – ekki bara hvað varðar menninguna á staðnum og hrynjandann í mannlífinu heldur líka samsetningu atvinnulífsins,“ segir Elliði.
Þá segir Elliði að menn geti notið góðs af því að búið sé að fjárfesta gríðarlega mikið í höfninni á seinustu árum. „Og við getum stækkað hana enn frekar þannig að ef fyrirtæki eða einstaklingar úr Grindavík leita til okkar þá reynum við að vera þeim innanhandar.“
Draumurinn að sjá Grindavík rísa eins og hún var

Það er því ekkert því til fyrirstöðu að þessu leyti að sjávarútvegsfyrirtæki úr Grindavík gætu gert út frá Þorlákshöfn.
„Þetta snýst meira um aðstöðuna í landi en líka þar teljum við okkur geta orðið bandamenn Grindvíkinga á þessum erfiðu tímum,“ segir bæjarstjórinn. Ölfusingar taki stöðu Grindvíkinga mjög alvarlega.
„Við viljum gjarnan bjóða þeim aðgengi að okkar innviðum á þeirra forsendum og að frumkvæðið komi frá þeim – því auðvitað er það okkar draumur að sjá Grindavík rísa eins og hún var.“
Skoða aðstæður í Sandgerði

Magnús Stefánsson, bæjarstjóri í Suðurnesjabæ, segist vita til þess að einhverjir Grindvíkingar hafi verið að skoða aðstæður í Sandgerði. Nokkuð af fólki úr Grindavík
hafi búið í Suðurnesjabæ frá því að eimabær þeirra var rýmdur.
Suðurnesjabær er að sögn Magnúsar ágætlega í stakk búinn að vissu marki til að taka á móti Grindvíkingum til lengri tíma. Engin formleg erindi hafi borist hvað slíkt snertir.
„Við erum með íbúðahverfi bæði í Garði og Sandgerði sem eru í uppbyggingu og það er ákveðið svigrúm þar. Ef menn fara út í að byggja upp atvinnuhúsnæði þá erum við með eitthvað af lóðum fyrir það líka,“ segir bæjarstjórinn í Suðurnesjabæ.