Hugmyndin um sérstakan fund í norsk-rússnesku fiskveiðinefndinni um stjórn mála í Svalbarðalögsögunni veldur fiskimönnum í Noregi áhyggjum, að því er fram kemur í Fiskeribladet/Fiskaren.
Sjómenn og forsvarsmenn í norskum sjávarútvegi sem blaðið talaði við segja að ef Norðmenn gefi kost á því að ræða við rússnesk yfirvöld um þessi mál muni það vera túlkað sem veikleikamerki.
Áform um þennan fund koma í kjölfar þess að norska strandgæslan tók á dögunum rússneskan togara og sektaði hann fyrir brottkast. Rússar mótmæla því að Norðmenn hafi þennan rétt og hafa meðal annars farið fram á það að rússneskir eftirlitsmenn verði um borð í norskum eftirlitsskipum.
Í raun hafa aðeins fá lönd formlega viðurkennt Svalbarðalögsöguna sem norskt yfirráðasvæði. Menn óttast því að allar tilslakanir gagnvart Rússum muni opna fyrir tilkall annarra þjóða og ESB sérstaklega til að hafa afskipti af stjórn og eftirliti á svæðinu.
Haft er eftir Geir Ulfstein, lögspekingi við Óslóarháskóla, að stjórn Svalbarðasvæðisins hafi alltaf verið línudans milli þess að Norðmenn fari með fullveldisstjórn yfir svæðinu en hafi samstarf við önnur lönd um nýtingu deilistofna.
Ulfstein segir að ekki hafi verið greint frá því nákvæmlega hvert viðfangsefni fundarins eigi að vera. Ef það komi skýrt fram að Norðmenn hviki ekki frá stefnu sinni að Noregur sé eina ríkið sem eigi að fara með stjórn Svalbarðasvæðisins þá sé ekkert að óttast. Ef það eigi hins vegar að fjalla um það hvort norsk stjórnvöld þurfi að fá samþykki Rússa fyrir ákvörðunum sínum þá sé vegið að sjálfum kjarna Svalbarðamálsins, þ.e. fullveldisrétti Norðmanna yfir svæðinu.