Nýja skipið er hið glæsilegasta, hannað hjá Skipsteknisk í Noregi og smíðað í Astilleros Balenciaga skipasmíðastöðinni á Spáni og hefur verið í Færeyjum undanfarið þar sem færeyska veiðarfæragerðin Vónin hefur útvegað þrenns konar togbúnað í skipið. Áhöfnin hefur verið að gera skipið klárt til rannsókna og stefnt er á fyrsta rannsóknaleiðangurinn nú í vor.

Sérstaklega styrktur

Tarajoq er skuttogari, búinn til bæði uppsjávar- og botnveiða og með sérstaklega styrktan skrokk til siglinga á hafísslóðum. Skipið er 61,4 metra langt og 16 metrar á breiddina þannig að nóg pláss er fyrir rannsóknabúnað af ýmsu tagi. Aðstaða er fyrir 32 manns um borð, þar af 12 í áhöfn og 20 vísindamenn og nema.

Grænlendingar eiga annað minna rannsóknaskip, Sanna, sem mun áfram sinna hafrannsóknum nær landi og inni á fjörðum, en Tarajoq getur vegna stærðar sinnar og búnaðar siglt lengra í norður og sinna fjölbreyttari rannsóknum en áður hefur verið mögulegt í rannsóknaleiðöngrum við Grænland.

„Þau tæknilegu þrekvirki og sá metnaður sem lagður hefur verið í Tarajoq sýnir hve mikilvægt lífríki hafsins er fyrir samfélagið í Grænlandi,“ segir í frásögn grænlensku náttúrufræðistofnunarinnar sem mun gera út skipið til rannsókna fyrir hönd grænlensku landstjórnarinnar.