Ágreiningur er kominn upp um raunveruleg stærðarmörk í krókaaflamarkskerfinu. Landssamband smábátaeigenda hefur skrifað atvinnuvegaráðuneytinu bréf þar sem farið er fram á að ekki verði leyft að úthluta krókaaflaheimild til báta sem eru stærri en 15 brúttótonn.

Tilefnið er að 30 brúttótonna bátur, Bíldsey SH er nú að veiðum í kerfinu. Báturinn fékk heimildir sínar þegar hann var innan við 15 brúttótonn en var síðan stækkaður í 30 brúttótonn á þessu ári. Örn Pálsson, framkvæmdastjóri LS, segir í samtali við Fiskifréttir, að það hafi hingað til verið skilningur manna á lögunum að 15 brúttótonn væru hámarksstærð í litla kerfinu.

Ákvæði núgildandi laga er á þá leið að krókaaflamark verði aðeins flutt til báts sem er undir 15 brúttótonnum að stærð enda hafi hann veiðileyfi í krókaaflamarki.

Gunnlaugur Árnason, útgerðarmaður Bíldseyjar, segir að hann hafi farið að lögum og ennfremur stuðst við túlkun sjávarútvegsráðuneytisins á lögunum. Báturinn hafi aðeins verið stækkaður til að bæta aðbúnað og öryggi um borð. Lögin banni ekki að bátar í krókaaflamarkinu haldi krókaaflamakshlutdeil eftir að þeir hafi verið stækkaðir.

Sjá nánar um málið í nýjustu Fiskifréttum sem komu út í dag.