Þann 13. nóvember næstkomandi verður haldin fyrsta „Íslandsmeistarakeppnin í matarhandverki“. Keppnin verður að þessu sinni opin fyrir allar Norðurlandaþjóðirnar og fer fram í Norræna húsinu. Matís og Ný norræn matvæli II bjóða smáframleiðendum frá öllum Norðurlöndunum að taka þátt í keppninni.

Samhliða keppninni verður haldin ráðstefna, sem er opin öllum, þar sem hægt verður að fræðast um hvernig frændur okkar á Norðurlöndunum hafa stutt og markaðssett matarframleiðslu úr héraði. Sjá nánar á vef Matís .

Í kringum keppnina verður boðið upp á vettvangsferð, þar sem heimsóttir verða smáframleiðendur á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurlandi. Eins verður boðið upp á hálfs dags námskeið og stutta fyrirlestra fyrir smáframleiðendur og aðra áhugasama um matvælaframleiðslu.