Breska landamærastofnunin (UK Border Agency) hefur hert aðgerðir gegn erlendum fiskimönnum frá þjóðum utan ESB sem starfa á fiskiskipaflotum Bretlands og Norður-Írlands og vísa þeim úr landi sem ekki falla undir settar reglur.
Útgerðir á Bretlandseyjum hafa í auknum mæli ráðið erlenda sjómenn, einkum frá Filippseyjum, á skip sín vegna skorts á innlendu vinnuafli. Slíkir fiskimenn eru flokkaðir sem sjófarendur sem vinni á skipum utan 12 mílna lögsögu en hafi ekki fasta búsetu á Bretlandseyjum. Fyrir nokkrum árum var slakað á þessum reglum og horft var í gegnum fingur sér með að útlendingar utan ESB svæðisins væru ráðnir á minni skip sem aðallega fiska innan 12 mílnanna.
Nú hefur breska ríkisstjórnin tekið upp harðari stefnu í innflytjendamálum sem meðal annars felur það í sér að áðurnefndir erlendir sjófarendur mega einungis vera á skipum þar sem minnst 75% veiðitímans er utan 12 mílna markanna. Þetta skapar ekki vandamál fyrir stóru fiskiskipin frá austurströnd Skotlands, en megnið af flotanum á vesturströndinni og í norðanverðu Írlandshafi, aðallega rækjutogarar, getur ekki lengur vera með erlenda sjómenn í skipsrúmi.
Í frétt um málið í Fishing News International segir að þessi floti skipa sé orðinn háður erlenda vinnuaflinu og því í miklum vanda. Haft er eftir Dick James framkvæmdastjóra samtaka norður-írskra útgerðarmanna að þeir vildu mjög gjarnan ráða heimamenn á skipin en það væri erfitt því flestir væru ýmist óhæfir til starfa eða ekki viljugir að laga sig að þeim kröfum sem gerðar væru til fiskimanna.