Breska blaðið The Sunday Times hefur síðustu mánuði staðið fyrir herferð sem kölluð er ,,Verndum höfin okkar“. Caroline Spelman umhverfisráðherra hefur tjáði blaðinu að hún áformi að birta nöfn fyrirtækja sem hafi yfir breskum fiskikvótum að ráða.

Í frétt á sjávarútvegsvefnum FISHupdate.com segir að rannsókn blaðamanna The Sunday Times hafi leitt í ljós að stór hluti breska kvótans sé nú í höndum erlendra fyrirtækja, margra þeirra spænskra, og fyrirtækja sem hafi þóttafulla afstöðu til fiskverndar. Mikill fjöldi öflugra spænskra togara séu nú skráðir í Bretlandi.

Fram kemur að uppkaup á breskum fiskikvótum hafi átt sér stað um nokkurra ára skeið, aðallega þegar bresk fiskiskip hafi verið tekin úr rekstri. Við slíkar aðstæður hafi erlend fyrirtæki gjarnan hlaupið til og keypt kvóta. Bent er á að þessi kvótakaup stærri fyrirtækja hafi slæm áhrif á breska smábátaflotann sem hafi nú til ráðstöfunar einungis 4% af 600.000 tonna heildarkvóta Breta.

Tekið er fram í fréttinni að þótt umhverfisráðherrann geti birt nöfn stórra kvótahafa hafi hún ekki vald til þess að svipta þá kvótum sínum að óbreyttum lögum.