Skoskir fiskimenn hafa fagnað nýrri skýrslu um umfang veiða erlendra skipa í lögsögu Bretlands, að því er fram kemur í frétt á vef FishUpdate. Í skýrslunni, sem byggð er á gögnum frá ESB, kemur fram að meira en helmingur sjávarafla sem veiddur er við Bretland milli áranna 2012 og 2014 hafi verið veiddur af erlendum skipum.

Um 58% af fiski og skelfiski sem veiddist í efnahagslögsögu Breta voru veidd af skipum frá öðrum ESB-löndum en Bretlandi. Þetta er um 650 þúsund tonn af fiski og skelfiski á ári að meðaltali að verðmæti meira en 400 milljónir punda (53,6 milljarðar ISK). Á sama tíma veiddu bresk skip 90 þúsund tonn af fiski og skelfiski í lögsögu annarra ESB-ríkja á ári að verðmæti um 100 milljónir punda (um 14,1 milljarður ISK). Hér hallar verulega á bresk skip.

Helmingur alls botnfisks og tveir þriðju af uppsjávarfiski sem veiddist í bresku lögsögunni var tekinn af skipum frá öðrum ESB-löndum. Meira en þrír fjórðu af sólflúru, lýsingi og síld, og meira en helmingur af stórkjöftu, skarkola og ufsa voru veidd af erlendum skipum.

Bertie Armstrong, framkvæmdastjóri samtaka skoskra fiskimanna, segir það vera átakanlegt í hve ríkum mæli Bretar hafi gefið frá sér aðgang að fiskveiðiauðlindinni á undanförnum árum. Með Brexit fáist full yfirráð yfir efnahagslögsögunni sem muni efla fiskveiðar Breta og styrkja sjávarbyggðir.

Skýrsluna má finna í heild HÉR .