Um miðja vikuna höfðu erlend skip veitt tæplega 50 þúsund tonn af loðnu í lögsögu Íslands á vertíðinni, samkvæmt upplýsingum frá stjórnstöð Landhelgisgæslunnar. Erlend skip mega veiða um 73 þúsund tonn í íslenskri lögsögu af 390 þúsund tonna heildarkvóta í loðnu, eða tæp 19%, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.
Norsk skip veiddu um 29.900 tonn af loðnu hér við land í vetur og hafa lokið veiðum. Grænlenska skipið Erika hafði veitt 8.600 tonn um miðja vikuna og er enn að, en kvóti Grænlands er 23 þúsund tonn. Færeysk skip mega veiða hér um 19.500 tonn af loðnu og byggist það á fiskveiðisamningi milli Íslands og Færeyja. Um miðja vikuna höfðu færeysk skip veitt um 10.500 tonn og eru þau enn að.