Eignaraðild Samherja í erlendum sjávarútvegsfyrirtækjum skapar mikla atvinnu hér á landi. Fyrirtækin hafa gert samninga við íslensk iðnfyrirtæki upp á um 900 milljónir króna síðustu 6 mánuði og keypt vörur og þjónustu hér fyrir hundruð milljónir króna í tengslum við landanir.

Þá hefur Samherji, það sem af er þessu ári, flutt inn rúmlega 10 sinnum meira magn af fiski til vinnslu en fyrirtækið hefur flutt út, m.v. óaðgerðan, heilan fisk. Áætlaður virðisauki af vinnslu þessa innflutta hráefnis er um 650 milljónir króna. Samtals hafi því um 2 milljarðar króna komið inn í íslenskt atvinnulíf það sem af er árinu vegna starfsemi erlendra fyrirtækja sem tengjast Samherja.

Þetta kemur fram í bréfi, sem Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, og Kristján Vilhelmsson, framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja, hafa sent starfsfólki sínu.

Kveikjuna að bréfinu segja þeir þá að því sem vel er gert í íslenskum sjávarútvegi sé lítið haldið á lofti. Mikið beri á þekkingarleysi í umræðunni og oft sé beinlínis farið með rangt mál, vísvitandi eða óvart.

“Við höfum margoft heyrt að Samherji flytji mikið magn af óunnum fiski til vinnslu erlendis. Nýlega lásum við t.d. að fyrirtækið mokaði upp fiski í íslenskri lögsögu, sem það flytti óunninn úr landi. Við erum með þessu beinlínis sökuð um að draga úr eflingu atvinnu og hagvaxtar á Íslandi. Þetta er víðsfjarri sannleikanum og vegna endurtekinna rangra staðhæfinga um starfsemi Samherja langar okkur, ágæta starfsfólk, að fara aðeins yfir að fara aðeins yfir það með ykkur hvað við höfum verið að gera síðustu mánuði,” segja þeir í bréfi sínu.

Bréfið er í heild er birt á vef Samherja.