Niðurstöður uppsjávarleiðangurs sumarsins komu vísindamönnum um borð töluvert á óvart. Vísitala lífmassa makríls mældist 5,15 milljónir tonna, sem er 58% lækkun frá árinu 2020. Þetta er minnsti lífmassi makríls sem mælst hefur síðan 2012.
„Já, það kom okkur á óvart að það mældist svona lítið af honum,“ segir Anna Heiða Ólafsdóttir, fiskifræðingur á Hafrannsóknastofnun.
Þessar niðurstöður eru mikill viðsnúningur frá síðustu árum, því á síðasta ári var vísitala lífmassa makríls í Norðaustur-Atlantshafi metin 12,3 milljónir tonna sem var mesti lífmassi sem mælst hafði frá upphafi leiðangursins árið 2007.
Anna Heiða var leiðangusstjóri um borð í rannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni, en auk Íslendinga tóku Færeyingar, Norðmenn og Danir þátt í uppsjávarleiðangri sumarsins.
Hafrannsóknastofnun birti samantekt á niðurstöðum leiðangursins nú í byrjun vikunnar, en þann 30. september verður ráðgjöf ársins birt. Hún er byggð á niðurstöðum leiðangursins, en Anna Heiða leggur áherslu á að vísitala lífmassans sé engan veginn eina mælingin sem notuð er við ákvörðun ráðgjafar.
„Það má aldrei túlka vísitölu leiðangra þannig að hún segja manni hversu stór stofninn. Leiðangurinn mælir útbreiðslu stofnsins, aldurs- og stærðarsamsetningu, og gefur vísbendingu um hvort stofninn hafi stækkað eða minnkað samanborið við síðustu ár“ segir Anna.
„Aðalgögnin í stofnmatinu eru aflagögn. Sjómenn og útgerðarfyrirtæki taka sýni úr aflanum og senda til Hafrannsóknastofnunar. Við mælum sýnin og þetta gefur okkur hlutföll af mismunandi árgöngum í veiðinni á hverri vertíð. Stofnmatsmódelið notar þessar upplýsingar til að fylga eftir árgöngunum frá því að þeir koma inn í veiðina og þangað til þeir verða gamlir og hverfa úr veiðinni.“
Skýringar á því af hverju vísitalan varð miklu lægri í ár liggja ekki á lausu. Anna Heiða segir að meðal annars hafi menn velt því fyrir sér hvort hegðun makrílsins hafi breyst eitthvað, „hvort hann sé eitthvað dýpra eða hvort það eru þéttar torfur. Ef við hittum á þéttar torfur þá eru stór tog en ef þeir eru dreifðir þá hittum við ekki á stór tog, fáum bara nokkra fiska.“
Sum árin hafi fengist „nokkuð mörg stór tog, tíu tonn eða tuttugu tonn, sem hafa þá mikil áhrif á stærð vísitölunnar það árið“.
Oft sé heldur enginn hægðarleikur að túlka þau gögn sem notuð eru til grundvallar stofnmati og ráðgjöf. Teknar eru saman fimm gagnaseríur, sem hafa undanfarin ár gefið mismunandi vísbendingar um ástand stofnins, sumar hafa bent til að stofninn sé að minnka aðrar að hann sé að stækka eða að stofnstærð breytist lítið milli ára.
„Í stofnmati eru notaðar fimm gagnaseríur sem allar keppast um að hafa áhrif á módelið og vægi þeirra hefur verið breytilegt í stofnmati undanfarinna ára“ segir Anna Heiða.
„Það má alla vega ekki gera ráð fyrir að þegar vísitalan hrynur þá gefi það til kynna nákvæmlega hvernig stofnmatið verður. Í fyrra þá mældist há vísitala úr leiðangrinum og svo kom stofnmatið sem sýni minnkun í stofnstærð. Þetta getur gengið í báðar áttir.“
Á hafsvæðinu við Ísland mældist nú 19% minna af makríl en árið 2020, og hafði þó verulega dregið úr magnvísitölu stofnins hér frá árinu 2019. Einungis 7,7% stofnsins fannst inni á íslensku hafsvæði, sem Anna Heiða segir örlitlu meira en árið áður, en í leiðangri síðasta árs hafði lífmassavísitala stofnsins lækkað um 72% á íslenska svæðinu þótt hún hafi aukist um 7% á öllu svæðinu á Norðaustur-Atlantshafi.