„Fólk hefur bara látið vel af þessu,“ segir Skarphéðinn Ásbjörnsson sem nú heldur sína nítjándu fiskasýningu í röð á Fiskideginum mikla á Dalvík.
„Fólk má vænta þess að sjá um 150 tegundir af fiskum, stórum og smáum. Það verða lifandi fiskar, uppstoppaðir fiskar og ýmis fróðleikur um fiska. Einnig myndbönd af fiskveiðum og neðansjávarmyndbönd,“ svarar Skarphéðinn aðspurður um það sem verður á boðstólum.
„Ég breytti þessu fyrir nokkrum árum. Ég var alltaf með þetta úti í fiskikörum, sem er mjög skemmtileg uppsetning en mjög óhentug því sólin og hitinn úti bræðir og þurrkar fiskana svo fljótt. Það er svo mikil vinna að ná nýjum eintökum á hverju ári í svona mörgum tegundum,“ útskýrir Skarphéðinn sem því afréð að færa sýninguna undir þak.
Skarphéðinn fékk bróður sinn Guðbrand Ægi í lið með sér. Hann segir Guðbrand Ægi vera með ljósafyrirtæki sem sér um lýsingu á ýmsa viðburði.

„Hann er mjög listfengur og eftir að ég fór með þetta inn hefur hann útbúið mjög skemmtilega lýsingu á sýningarsvæðið,“ segir Skarphéðinn.
Fiskasýningin er opin á morgun milli klukkan 11 og 17 og er þá lokið. „Þeir þola ekki meira fiskarnir,“ segir Skarphéðinn og tekur undir að ráðlegt sé fyrir áhugasama Fiskidagsgesti að mæta tímanlega á sýninguna.
„Reyndar hefur þetta verið þannig núna síðustu ár að fólk hefur komið tímanlega. En það er hins vegar alltaf dálítið vandamál að loka klukkan fimm því það eru margir sem ekki vilja fara þá,“ segir Skarphéðinn og hlær.