„Tíðarfarið hefur verið alveg skelfilegt hjá körlunum,“ segir Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda. „Menn hafa líka þurft að leggja meira á sig til að ná aflanum. Þetta hefur verið basl.“
Engu að síður hefur veiðin verið þokkaleg. Búið er að veiða rúmlega 9.770 tonn í ár, samkvæmt tölum Fiskistofu síðdegis á föstudegi, síðasta degi veiðanna, en á síðasta ári varð heildaraflinn nærri 9.800 tonn.
„Menn hafa þurft að hafa meira fyrir þessu,“ segir Örn. „Það hefur tekið lengri tíma að ná skammtinum, en það er samt ekki svo að menn nái honum ekki.“
Alls hafa 548 bátar verið á strandveiðum í sumar, samkvæmt tölum frá Fiskistofu, en á síðasta ári voru þeir 594. Hver bátur hafði nú á þriðjudaginn, þegar örfáir dagar voru eftir, að meðaltali fengið rúm 17,5 tonn en á síðasta ári var meðaltalsaflinn á bát tæp 16,5 tonn. Þá náði fjöldi landana 15.750 á síðasta ári en er kominn upp í 14.560 í ár.
Breytt fyrirkomulag
Ráðuneytið kynnti í lok apríl breytt fyrirkomulag sem yrði á strandveiðunum í sumar. Heimiluð var veiði upp á 10.200 tonn og hverju skipi heimilað að stunda veiðar allt að tólf daga á mánuði þá fjóra mánuði sem veiðarnar voru heimilaðar. Viðbrögð sjómanna við þessu breytta fyrirkomulagi urðu nokkuð misjöfn.
„Jú, vissulega og það var alveg ástæða fyrir því. Þetta var kynnt fyrir okkur þannig að við værum með tólf daga örugga í hverjum mánuði en síðan þegar leið á var tilkynnt að ef við færum yfir þennan heildarafla sem var áætlaður til strandveiða þá yrði stoppað í ágúst. Það var náttúrlega það sem hleypti óánægjunni af stað, að það stóð ekki sem búið var að segja. Og það var auðvitað mjög miður.“
Örn telur þó fullvíst að heimildin hefði verið rýmkuð ef þurfa þótti.
„Við höfðum loforð upp á 11.200 og ég reikna með að ráðherrann hefði gefið út reglugerð þar sem það hefði verið heimilað,“ segir Örn.
Verðið skánaði
„Við förum nú samt langt með að ná þessum 10.200 tonnum. Það er náttúrlega miður að við náum því ekki en það liggur í því að er 46 bátum færra núna að veiðum en á síðasta ári. Ef þetta hefði verið sami fjöldinn og í fyrra þá þetta komið vel yfir tíu þúsund tonn.“
Hann segir erfitt að alhæfa um það hvers vegna færri hafi ákveðið að taka þátt í strandveiðunum núna.
„Ég held að aðalskýringin sé samt kannski sú að verðin i upphafi vertíðar voru ekki nægilega góð. Þá tóku menn bara þessa ákvörðun og stóðu við hana.“
Örn segir verðlagið samt hafa lagast töluvert síðan.
„Það hefur farið yfir 400 krónur þegar best lætur fyrir 8+ og það er alveg prýðilegt.“
Grásleppan
Hvað grásleppuna varðar segir Örn sumarið sömuleiðis hafa verið þokkalegt.
„Víðast hvar var góð veiði, og verðið var viðunandi. Það hækkaði frá því í fyrra þrátt fyrir að gengið hafi styrkst, og það er sennilega eina sjávarafurðin sem hefur skilað því.“
Grásleppuvertíðin hófst að venju 20. mars og henni lauk þann 12. ágúst. Vertíðin skilaði 4.486 tonnum í ár, sem er nokkurn veginn sami afli og 2017.
Örn segir ekkert benda til þess að missir MSC-vottunar á grásleppuveiðum hér við land hafi haft nein áhrif á markaðinn.
„Nei, það hefur ekki gerst. Það var skortur á markaðnum. Að sjálfsögðu gæti það gerst ef framboðið væri mikið, en við erum ekkert smeykir við það.“
Hins vegar segir hann það einnig hafa verið vonbrigði, rétt eins og strandveiðunum, að færri bátar fóru á grásleppuveiðar en undanfarin ár. Sömu sögu megi reyndar segja líka um makrílveiðar smábátasjómanna.
Færri bátar
„Heilt yfir er það þannig að það eru færri smábátar í öllum þessum sérveiðum hjá okkur, bæði strandveiðum, makrílnum og grásleppunni. Á því er engin ein skýring. Auðvitað gæti veiðigjaldið hafa eitthvað spilað inn í, og neikvæð umræða um greinina. En maður vonar að menn rétti úr kútnum á næsta ári og fleiri sýni veiðunum áhuga.“
Makrílveiðarnar hafa þó gengið sæmilega, segir Örn.
„Aflinn er kominn yfir 3.100 tonn, sem er eiginlega sama magn og á síðasta ári. En þá voru 10 bátum fleira á veiðum.“
Hvað makrílinn varðar segir Örn þó erfitt að vita hve lengi hann endist.
„Það er ómögulegt að segja til um það. Hann er svo dintóttur að hann getur þess vegna verið horfinn á morgun en svo getur hann einnig dvalið hér í einhverjar vikur í viðbót. Mönnum fannst hann koma eitthvað seinna núna þannig að ég ætla að vona að hann tolli þá alla vega þann tíma sem hann var í fyrra, en oft er það einhvern veginn þannig að hann veiðist ekki mikið fram í september.“