Gengishrun rúblunnar og minnkandi kaupgeta í Rússlandi auk skorts á greiðslutryggingum mun ekki stöðva sölu á uppsjávarfiski frá Íslandi til Rússlands, að því er Teitur Gylfason sölustjóri hjá Iceland Seafood segir í viðtali við Fiskifréttir.

„Staðan er erfiðari en verið hefur en það er enginn heimsendir í kortunum,“ segir Teitur. „Loðna, síld og makríll ekki dýr matur í Rússlandi og þegar kaupgetan minnkar hættir fólk frekar að kaupa dýrari afurðir eins og til dæmis lax og dýran hvítfisk og leitar í ódýrari vörur. Ég ímynda mér að neysla á vörum eins og síld minnki minna en menn gera ráð fyrir og neysla á makríl jafnvel líka þótt hann sé heldur dýrari en síldin.“

Teitur segir hins vegar að vegna minnkandi kaupmáttar í Rússlandi megi gera ráð fyrir að verð á þessum uppsjávarafurðum lækki eitthvað og þá sérstaklega á makríl.

Sjá nánar viðtal við Teit í nýjustu Fiskifréttum.