Tilraun norskra vísindamanna á norsk-íslenskri síld leiddi í ljós að hægt er að hafa áhrif á hvenær hrygning hennar fer fram.

Þetta eru afar merkilegar niðurstöður enda eru þekkt erfðamörk sem eru tengd við hrygningartíma og eru notuð til að aðgreina stofna síldarinnar. Samkvæmt niðurstöðunum eru það auðsjáanlega ekki aðeins erfðir sem stjórna hrygningartíma síldar, heldur líka umhverfið.

Síldargöngur

Á hverju ári, í febrúar og mars, gengur mikið magn norsk-íslensku síldarinnar að norðvesturströnd Noregs til að hrygna. Hins vegar hrygnir til dæmis meirihluti Norðursjávarsíldar á haustin. En hvað nákvæmlega ræður því að síldin hrygnir á tveimur ólíkum tímum ársins? Hvað gæti valdið því að tími hrygningar breytist? Þetta eru spurningar sem sjávarlíffræðingar eru að reyna að svara.

„Við vildum athuga hvort hrygningartíminn ráðist af lengd dagsins og birtustigi, sem eykst að vori og minnkar þegar að haustar, segir einn rannsakenda Florian Berg,  hjá Norsku hafrannsóknastofnunni.

Til að leita svara gerðu Berg og samstarfsmenn hans, tilraun á síldinni sem stóð í þrjú og hálft ár. Lirfur síldarinnar voru alin í tveimur áþekkum tönkum. Í öðrum var líkt eftir birtuskilyrðum í nágrenni Bergen þar sem síldin var veidd. Í hinum var ferlinu seinkað um sex mánuði, eða því hliðrað, svo „dagarnir“ urðu lengri miðað við náttúruleg skilyrði. Hitastig, fæða og aðrir umhverfislegir þættir voru þeir sömu í báðum tönkum, svo vísindamennirnir gátu einangrað áhrif birtuskilyrðanna sem síldin ólst upp í.

Þrjú „vor“

„Með því að stýra ljóslotu, elst nú síld sem klaktist út í vor upp við birtuskilyrði sem eru dæmigerð fyrir hausttímann. Þess vegna, vorum við spenntir að vita hvort síldin næði þroska á þremur árum, eins og venja stendur til, eða eftir þrjú og hálft ár ef síldin upplifði þrjú „vor“ með breytingum á birtunni sem hún ólst upp í, segir Florian Berg í grein um rannsóknina á heimasíðu stofnunarinnar.

Niðurstaðan var sú að síldin sem var „blekkt“ frestaði hrygningu þangað til að dagarnir lengdust. Hrygningartímanum var með öðrum orðum frestað um sex mánuði. Það er því birtan – dagsljósið – sem stillir lífsklukku síldarinnar og hrygningu hennar.

Niðurstaðan gerði vísindamönnunum jafnframt kleift að hafna þeirri hliðartilgátu að ástand sjávar hefði áhrif á hrygningartímann, eða þegar vorar og aðstæður í hafinu breytast. Í báðum tönkunum var beint innstreymi sjávar og seltustig og næring því eins og í náttúrulegu umhverfi síldarinnar óháð árstíð.

„Ef síldin hefði hrygnt þegar það vor úti fyrir, þó það væri í raun haust í eldistankinum, þá hefðu svörin verið önnur, en ekkert slíkt gerðist.

Hlýnun sjávar

Ein helsta niðurstaða rannsóknarinnar, sérstaklega þegar litið er lengra fram í tímann, er hvernig síldin mun bregðast við þeim umhverfisbreytingum sem eru að verða með hlýnun jarðar.

„Þetta sýnir að stofninn, sem er afar mikilvægur norskum sjávarútvegi, mun ætíð hrygna að vori, óháð þeim breytingum sem verða á loftslagi og hækkandi hitastigi sjávar. Síldin lætur stjórnast af birtustiginu og mun því fylgja árstíðunum án áhrifa frá öðrum vistfræðilegum þáttum sem tengjast loftlagsbreytingum,“ segir Florian Berg sem bætir við að jafnframt sé þetta samband ljóss og hrygningar að það séu takmörk fyrir því hversu langt í norður síldin getur teygt sig, þó hafið hlýni.

Þetta er í fyrsta sinn sem svo umfangsmikil rannsókn er gerð á því að „fikta“ í birtustigi síldar í uppvexti. Vísindamennirnir eru á sama tíma komnir vel á veg með aðra áþekka tilraun þar sem hitastigi er haldið ólíku við uppeldisskilyrðin í eldistönkunum tveimur. Niðurstaðan gæti orðið hvort mögulegt er að staðfesta hvort hitastigið hefur áhrif líkt og birtan.