Á heimasíðu Síldarvinnslunnar er fjallað um reynslu Rússa og Eista af uppboðsleiðinni við úthlutun aflaheimilda. Segir þar að tilraunir þessara þjóða sé víti til varnaðar. Greinina skrifar Sigurður Steinn Einarsson og er hún útdráttur úr lengri samantekt.
„Horfið var frá uppboðsleið í Eistlandi og Rússlandi eftir tilraunir með slíkt 2001 til 2003. Í Eistlandi, þar sem boðin voru upp 10% heimilda, var kerfið talið hafa leitt til sóunar á auðlindinni, gjaldþrota smærri fyrirtækja og stórminnkandi starfsöryggis sjómanna,“ segir Sigurður.
„Rússar buðu upp aflaheimildir í Austur-Rússlandi og í Barentshafi og þótt ekki hafi allur kvóti selst fékkst fyrir hann mun hærra verð en ráð hafði verið fyrir gert. Ríkið fékk í sinn hlut sem svarar 20,3 milljörðum króna 2001, 29,6 milljörðum 2002 og 38,6 milljörðum 2003. Voru þá ekki allir sáttir ?
Sex milljarða króna hagnaður af sjávarútvegi í austurhluta Rússlands árið 2000 snerist í sex milljarða tap árið eftir. Fljótlega kom að því að 90% sjávarútvegsfyrirtækja á svæðinu voru sögð illa stödd fjárhagslega og tekjur sveitarfélaga skertust. Eftir upptöku uppboðsleiðarinnar runnu 96% af skatttekjum af sjávarútvegi til ríkisins en 4% til sveitarfélaga, í stað 34% áður.
Fyrirtækjunum reyndist erfitt að áætla kvótakaup vegna meðafla og keyptu sum kvóta sem ekki veiddist. Árið 2001 veiddust ekki 77 þúsund tonn af heimildum sem seldar voru á uppboði. Þá eru vísbendingar um stóraukið brottkast. Skyndilega veiddist nær enginn smáufsi, heldur bara af stærð sem best hentaði til vinnslu. Talið er að framhjálandanir og ólöglegar veiðar í Austur-Rússlandi hafi numið um 120 milljörðum króna 2001 til 2003.
Sumarið 2003 hættu Rússar að bjóða upp aflaheimildir á svæðinu og hurfu aftur til kerfis sem byggði á veiðireynslu. Veiðigjöld runnu að 80% til ríkisins og 20% til sveitarfélaga.
Hér hlýtur reynsla Rússa og Eista að skipta máli. Vert er að hugleiða hvort ekki séu líkur á að í uppboðskerfi standi smærri og meðalstór sjávarútvegsfyrirtæki höllum fæti gagnvart þeim stærstu, hvort samkeppni um kvóta leiði ekki til skaðlegrar verðbólu og hvort ávinningur til lengri tíma verði hverfandi þótt tekjur ríkisins kunni að aukast í fyrstu. Eins þarf að hugleiða hvort starfsöryggi fólks í sjávarútvegi verði ógnað og hvort óvissa aukist um tekjur sveitarfélaga og hvort fyrirséð séu áhrif á langtímafjárfestingu og áætlanagerð í sjávarútvegi.
Sjávarbyggðir byggja tilveru sína á aflaheimildum. Spyrja má hvort rétt sé, sanngjarnt eða skynsamlegt að setja tilverugrundvöll byggðarlaga á uppboðsmarkað. Ef vilji er til að auka tekjur ríkisins af greininni eru til aðrar leiðir en uppboðsleiðin. Hætturnar sem henni fylgja virðast einfaldlega of margar og miklar,“ segir Sigurður Steinn Einarsson ennfremur.
Til að lesa nánar um þetta efni er hægt að smella hér