Miklar breytingar hafa orðið á dreifingu norsk-íslenskrar síldar, kolmunna og makríls í Noregshafi. Þetta ræðst að miklu leyti af breytingum á sjávarhita, að því er fram kom í erindi Ástu Guðmundsdóttur stærðfræðings á Hafrannsóknastofnun á málstofu Hafró á dögunum. Ásta varpaði fram þeirri spurningu hvort makríllinn væri að yfirtaka Noregshaf og ryðja burt kolmunnanum og einnig síld að hluta til.
Ásta sagði að frá því um miðjan tíunda áratug síðustu aldar hefði sjórinn hlýnað í NA-Atlantshafi. Á sama tíma hefði útbreiðsla þriggja uppsjávarstofna breyst á fæðutíma að vori og sumri. Þessir þrír stofnar, norsk-íslensk vorgotssíld, kolmunni og makríll, ættu það sameiginlegt að vera flökkustofnar sem nýttu Noregshaf og aðliggjandi svæði sem fæðuslóð.
Útbreiðslusvæði þessara þriggja stofna skarast að verulegu leyti en þeir ná allt frá Gíbraltar í suðri norður til Svalbarða og frá Austur-Grænlandi inn í Barentshaf. Noregshafið er aðalætissvæði þessara stofna. Stofnstærð hefur verið mjög breytileg í gegnum tíðina en hún mælist í milljónum tonna. Stærð hrygningarstofns síldar var til dæmis um 14 milljónir tonna 1950. Stofninn hrundi í kringum 1970 en mælist nú um 9 milljónir tonna. Makríllinn er á uppleið en kolmunninn er í mikilli lægð.
Niðurstöður Ástu voru þær að á hlýrri tímabilum stækkuðu stofnarnir þrír og dreifðu sér jafnframt yfir stærra svæði. ,,Ljóst er að Noregshaf er heimavöllur síldarinnar. Það lítur þó út fyrir að makríllinn sé “að taka yfir” Noregshaf og ýti síldinni að vesturmörkum Noregshafsins og inn á aðliggjandi hafsvæði. Göngur kolmunna hafa minnkað í Noregshaf en makríll er kominn í staðinn. Það getur verið að fæðuframboð sé ekki nóg í Noregshafi þannig að allir þrír stofnarnir geti verið stórir á sama tíma. Mikil veiði á kolmunna getur einnig hafa stuðlað að minnkandi stofni,“ sagði Ásta Guðmundsdóttir.
Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.