,,Hið góða ástand þorskstofnsins í Barentshafi hefur leitt til þess að oftar og oftar fá skip svo mikinn afla í einu að þau eru í vandræðum með afgreiða hann á sómasamlegan  hátt. Það er af og til hreinlega of mikill fiskur í sjónum,“ segir í frétt á vef norsku fiskistofunnar.

Þar kemur einnig fram að bæði veiðieftirlitið og strandgæslan hafi fengið upplýsingar um togara sem fengið hafi 50-70 tonn af fiski eftir að hafa dregið í nokkrar mínútur. Fulltrúar norsku fiskistofunnar, strandgæslunnar og Norges Fiskarlag (heildarsamtaka í norskum sjávarútvegi) hafa átt fundi þar sem rætt hefur verið um hvernig bregðast skuli við þessu óvenjulega ,,vandamáli“.

Meðal þess sem til umræðu hefur verið er að gefnar verði út tilkynningar þar sem varað verði við að þorskgengd geti verið meiri á tilteknum svæðum en öðrum. Slíkum tilkynningum verði ekki bara beint að togaraflotanum heldur einnig að skipum með önnur veiðarfæri sem standa frammi fyrir sama vanda, til dæmis dragnótabátum. Þá eru skipstjórar hvattir til þess að bíða með að setja veiðarfærin út aftur þar til búið er að ganga frá þeim afla sem kom inn síðast.