"Ég hef dálitlar áhyggjur af því að makrílgegnd verði ekki jafnmikil og verið hefur. Makríllinn hefur verið á ferð norður eftir og ef ekki er fært til vinstri heldur hann hugsanlega beina leið norður án viðkomu við Ísland," segir Guðmundur J. Óskarsson, sérfræðingur á nytjastofnasviði Hafrannsóknastofnunar í samtali við Fiskifréttir sem komu út í dag.
Yfirborðslög sjávar við suðaustan, sunnan og vestanvert Ísland eru mun kaldari en undanfarin ár og sumir óttast að það fæli makrílgöngur frá landinu að þessu sinni.
"Miðað við fyrr ár þá ætti makríllinn að vera farinn að láta sjá sig um þetta leyti árs og vera vel sýnilegur í öllum veiðarfærum. Hans hefur jafnan orðið vart í humartrollum en núna veit ég aðeins um tvo fiska sem komu í troll og tvo á færi úti af Hornafirði. Eittvað varð vart í humartrolli á Eldeyjarsvæðinu en þetta er allt og sumt. Staðan er beinlínis þannig að þessi kaldi sjór hefur áhrif á göngu makríls á íslenskt hafsvæði. Spurningin er hvað gerist nú þegar yfirborðssjórinn fer að hlýna og hvort nægilegt magn makríls sé enn til staðar þá til að ganga inn á svæðið," segir Guðmundur.
Nánar er rætt við Guðmund í nýjustu Fiskifréttum.