Eru norskir fiskútflytjendur tilbúnir til að hverfa frá ísöldinni? spyrja sérfræðingar hjá rannsóknastofnuninni Nofima í Noregi. Þeir segja að notkun á ís og frauðkössum hafi hindrað nýjungar í flutningum. Allt bendi til þess að hægt sé að finna aðrar hagkvæmari leiðir til að kæla fiskinn. Þetta kemur fram á heimasíðu Nofima.

Sérfræðingarnir minna á ísöldinni hafi lokið fyrir mörg þúsund árum en norskur sjávarútvegur hafi framlengt hana fram á 21. öldina.

Ís í tonnatali er notaður ár hvert til að kæla niður fisk í Noregi og halda honum kældum í flutningum. Árið 2010, svo dæmi sé tekið, fluttu Norðmenn út um 922 þúsund tonn af laxi, aðallega ferskum laxi. Ferski laxinn er í kössum og 5-6 kíló af ís sett í þá á móti 22 kílóum af laxi. Þetta jafngildir því að um 7.500 flutningarbílar fullir af ís séu í ferðum á ári hverju.

Lausnin sem vísindmenn Nofima benda á er svonefnd „súperkæling“ eða djúpkæling. Þetta er þekkt aðferð sem byggist á blöndun á karbondíoxíð og nítrógeni. Þessi grunnhugmynd hefur verið útfærð með ýmsu móti. Hún getur tryggt gæði fisksins í nokkrar vikur í kældu umhverfi, að sögn Nofima.

Kostirnir eru sagðir margir. Menn losna við vatnið sem kemur þegar ísinn bráðnar í flutningum. Þá er hægt að pakka fiskinum í pappakassa sem kosta um helming af venjulegum fiskkössum. Einnig komast fleiri fiskar í hvern kassa þegar ís er ekki notaður. Sparnaður í flutningskostnaði á að borga frárfestingu í búnaði til súperkælingar niður á stuttum tíma.

Sjá nánar http://www.nofima.no/nyhet/2013/01/den-siste-istid