Fiskútflutningsfyrirtækið Niceland Seafood er hætt starfsemi og hefur rekstur þess í Bandaríkjunum verið seldur. Hugmyndafræði Niceland Seafood byggðist á sölu á íslenskum fiski sem hægt væri að upprunarekja með QR-kóða.

Heiða Kristín Helgadóttir, einn stofnenda fyrirtækisins og núverandi framkvæmdastjóri Sjávarklasans, segir ýmsar ástæður fyrir því að reksturinn hafi ekki gengið upp.

„Að einhverju leyti þá lifði þetta félag Covid bara alls ekki af. Við vorum komin á mjög fínt ról fyrir Covid og okkur var að takast að komast inn á Bandaríkjamarkað og vorum að fá gott verð fyrir vöruna og sanna þá tilgátu okkar að það sé hægt að klifra ofar í virðisstiganum neytendamegin,“ segir Heiða Kristín.

Breyttu taktík til að lifa

Heiða Kristín Helgadóttir. Mynd/Aðsend
Heiða Kristín Helgadóttir. Mynd/Aðsend
© Gígja Einars (Gígja Einars)

Að sögn Heiðu Kristínar náði Niceland Seafood að gera góða dreifisamninga víða um Bandaríkin, sérstaklega á vesturströndinni. Fiskur frá fyrirtækinu hafi verið kominn á matseðla hjá nokkrum keðjum og í verslanir. Síðan hafi allt breyst í Covid. Til að búa til tekjur hafi verið gripið til þess að flytja út fisk og selja á hefðbundinn hátt. „Það var ekki orðið mikið pláss fyrir það sem við vorum að vinna að í upphafi,“ segir hún.

Spurningin hafi einnig verið um langlundargerð fjárfesta sem hafi haft í önnur horn að líta. „Þetta lagðist allt í stöðu sem var ekki sérstaklega spennandi. Að mörgu leyti finnst mér það mjög leiðinlegt því þetta var gott verkefni.“

Verðmætt vörumerki til sölu

Heiða Kristín segir ríkulega hafa verið fjárfest í  vörumerkinu Niceland Seafood og það hafi ekki fylgt með í kaupunum þegar reksturinn var seldur.

Fiskur frá Niceland Seafood í bandarískri verslun. Mynd/Aðsend
Fiskur frá Niceland Seafood í bandarískri verslun. Mynd/Aðsend

„Þetta er vörumerkið Niceland Seafood sem við vorum búin að kynna í Bandaríkjunum og í Evrópu og það er heill hugarheimur sem tengist því. Það er til sölu og það hafa verið einhverjar þreifingar með það,“ segir Heiða Kristín.

Þrátt fyrir það hvernig fór segist Heiða Kristín enn hafa tröllatrú á upphaflegu viðskiptahugmyndinni.

„Ég hef óbilandi trú á þessu vörumerki sem er sterkt í bransa þar sem eru ekki mjög mörg sterk vörumerki. Það eru ekki mjög margir, sérstaklega ekki hérna heima, sem hafa gengið svona langt í því að þróa sterkt vörumerki. Það er oft með svona hluti að það þarf kannski nokkrar tilraunir áður en að það tekst vel til,“ segir Heiða Kristín.

Stór áform fyrir fimm árum

Í júní 2018 var sagt frá því í Fiskifréttum að Niceland Seafood hefði ráðið fjóra sérfræðinga í sölu- og markaðssetningu á sjávarfangi í Bandaríkjunum. Þegar væri hafin sala í 65 verslunum i Colorado. Stórauka ætti markaðssetninguna á árinu 2019.

Rekjanleikalausn sem þróuð var hjá Niceland Seafood og heldur áfram sem sérfyrirtæki sem heitir Digiphy.
Rekjanleikalausn sem þróuð var hjá Niceland Seafood og heldur áfram sem sérfyrirtæki sem heitir Digiphy.

„Uppruna þess fisks sem hefur verið seldur frá Íslandi til Bandaríkjanna áratugum saman hefur ekki verið sérstaklega haldið á lofti,“ var þá haft eftir Heiðu Kristínu.

„Við ætlum að segja söguna af okkar fiskveiðum og hvernig við höldum okkar fiskistofnum sjálfbærum. Við nýtum okkur tæknina og nútíma markaðssetningu til þess að segja þessa sögu til dæmis með QR-kóða á umbúðum sem viðskiptavinir geta skannað með snjallsímunum sínum og fengið upplýsingar um fiskinn og umhverfið og rekjanleika vörunnar,“ útskýrði Heiða Kristín starfsemina í Fiskifréttum í júní 2018.