Rannsóknaskipið Árni Friðriksson er nú við mælingar á loðnu á hafsvæðinu úti af Norðausturlandi. Súlan EA fann loðnu austan við 16. gráðuna norður af Sléttu og er talið að þar sé á ferðinni loðnan sem mældist við ísröndina norður af Horni og Húnaflóa 6.-8. janúar síðastliðinn en hefur ekki sést síðan.
Sú loðna var á þeim tíma mæld 55.000 tonn en spurningin er hvort meira hafi skilað sér af henni austur á bóginn. Þessi loðna er að einhverju leyti farin að blandast ,,loðnugöngu II” norðaustan við landið en sú ganga hafði áður mælst 120.000 tonn. Fyrsta loðnugangan, sem mældist 180.000 tonn er fyrir allnokkru komin suður í hlýja sjóinn.
Mælingar á þessum þremur loðnugöngum hafa hingað til þannig gefið samtals 355.000 tonn en Hafrannsóknastofnun miðar við að 400.000 tonn verði skilin eftir áður en farið verði að veiða, eins og kunnugt er.
Von um veiðar byggist þess vegna á því að meira hafi skilað sér úr loðnugöngunni sem mældist við ísröndina 6.-8. janúar sl. og/eða að endurmæling á ,,loðnugöngu II gefi meira en áður.
Þorsteinn Sigurðsson sviðstjóri á Hafrannsóknastofnun kvað óvíst hvenær niðurstaða úr loðnumælingunni lægi fyrir, þegar Fiskifréttir ræddu við hann nú um hádegisbilið.
Sjá feril og staðsetningu rannsóknaskipsins á vef Hafró, HÉR