Að sögn Þorvaldar Garðarssonar útgerðarmanns og skipstjóra smábátsins Sæunnar Sæmundssonar ÁR er enn gríðarlegt magn loðnu úti fyrir Suðurlandi. Þorvaldur segir þetta óvenjulegt ástand og vitnar þar til reynslu sinnar á loðnugöngum á miðunum. Hann hefur gert út frá Þorlákshöfn í rúm 40 ár og segist ekki muna eftir öðru eins magni eftir að búið hafi verið að veiða útgefinn kvóta.
„Flest árin gengur loðnan hér með landinu og hverfur vestur fyrir land. Nú hefur hún haldið sér hér á slóðinni í gríðarlegu magni“, segir Þorvaldur í samtali á vef Landssambands smábátaeigenda.
Þorvaldur segist velta því fyrir sér hvort mælingar Hafrannsóknastofnunar hafi brugðist og stofninn sé mun stærri heldur en niðurstöður sögðu til um. Væri það rétt er hér um mjög gleðileg tíðindi að ræða fyrir lífríkið vegna hinnar miklu fæðu sem leggst til við dauða loðnunnar, segir á vef LS.