Verði farið að ráðleggingum vísindamanna verður enn á ný samdráttur í þorskveiðum í Barentshafi á árinu 2025. Norðmenn og Rússar ákváðu sameiginlega að draga úr veiðum um 20% á yfirstandandi ári og er kvótinn tæp 454 þúsund tonn. Sameiginlegur rannsóknahópur Norðmanna og Rússa um fiskistofna í Barentshafi telur að þörf sé á því að draga enn frekar úr þorskveiðum á næsta ári og mæla með kvóta upp á tæp 312 þúsund tonn. Það yrði þá 31% niðurskurður.

Þetta eru miklar breytingar á einungis þremur árum því árið 2021 var þorskkvótinn í Barentshafi tæp 886 þúsund tonn. Verði farið að ráðleggingunum verður 2025 fjórða árið í röð sem gripið er til niðurskurðar.

Kvóti upp á 312 þúsund tonn á árinu 2025 yrði sá minnsti frá árinu 2003.

Minnsti afli frá 1991

„Verði veiðar í samræmi við ráðgjöfina verður afli á árinu 2025 sá minnsti frá 1991,“ segir Bjarte Bogstad, vísindamaður við norsku hafrannsóknastofnunina.

Farið hefur verið eftir þeirri reglu að kvóti minnki ekki um meira en 20% milli ára en horfið er frá því ef útlit er fyrir að hrygningarstofninn fari niður fyrir varúðarmörk.

Ástæðan fyrir veiðiráðgjöfinni er lítil nýliðun í þorskstofninum. Norska hafrannsóknastofnunin segir að allt frá sögulegum hæðum árið 2013 hafi hrygningarstofn þorsks minnkað á hverju ári. „Nýliðun hefur verið lítil mörg undanfarin ár en veikustu árgangarnir eru 2019 og 2020,“ segir Bogstad.

Þeir árgangar verða fimm ára 2025 og því uppistaðan í þorskveiðum í Barentshafinu. Þessir veiku árgangar kalli því á kvótaniðurskurð.

Ákvörðun norsk-rússnesku fiskveiðinefnarinnar var tilkynnt nokkrum dögum áður en sjávarútvegsráðuneyti Rússlands tilkynnti að horfur væru á því að kvóti fyrir ufsaveiðar í Barentshafi yrði skorinn niður á árinu 2025. Kvótinn á yfirstandandi ári er nærri 2,3 milljónum tonna.