Ljóst er að árið í ár verður enn eitt metárið í útflutningi sjávarafurða frá Noregi. Nú þegar, þótt enn séu eftir tveir mánuðir af árinu, er verðmæti útfluttra sjávarafurða frá Noregi meira en á öllu árinu 2009 sem þó var metár.
Á fyrstu 10 mánuðum ársins nemur útflutningur sjávarafurða 43,1 milljarði NOK (815 milljörðum ISK). Hér er um 7,5 milljarða aukningu að ræða miðað við sama tímabil í fyrra, eða 21%.
Í október voru fluttar út sjávarafurðir fyrir 5,9 milljarða NOK (112 milljarða ISK) Aukningin er um 1 milljarður NOK, eða 21% frá sama mánuði í fyrra. Kröftugur útflutningur á makrílafurðum til Japans skýrir þessa aukningu ásamt því að metsala varð á eldislaxi í síðasta mánuði.
Í fyrsta sinn í sögunni fór útflutningur á afurðum úr laxi yfir 3 milljarða NOK (57 milljarða ISK) í einum mánuði. Þetta er 843 milljóna aukning, eða 38%, miðað við októbermánuð í fyrra. Það sem af er árinu hefur verið fluttur út lax fyrir 24,9 milljarða NOK (470 milljarða ISK).
Heimild: www.seafood.no