Varla líður svo vika að ekki sé tilkynnt um samninga um nýsmíði fiskiskipa í Noregi. Nýjasti samningurinn er milli útgerðarinnar Rogne á Heröy og dönsku skipasmíðastöðvarinnar Karstensens Skibsværft um smíði á tog- og nótaskipi.
Fiskeribladet/Fiskaren skýrir frá þessu í dag og segir smíðaverðið trúlega vera á bilinu 170-180 milljónir norskra króna sem er jafnvirði nálægt 3,7 milljarða íslenskra.
Skipið verður 69,9 metra langt og 14,2 metra, breitt knúið 3.000 kW aðalvél og með 2.000 rúmmetra lestarrými.
Skipið mun aðallega stunda kolmunnaveiðar vestan Írlands en einnig síld- og makrílveiðar í nót. Áætlað er að afhenda skipið frá skipasmíðastöðinni í lok árs 2012.