„Þetta hefur bara gengið nokkuð vel, svona miðað við að vera að starta þessu öllu,“ segir Valur Pétursson, skipstjóri á Huldu Björnsdóttur GK 11. Hið nýja skip Útgerðarfélagsins Ganta ehf., eitt þriggja félaga sem stafa frá Þorbirni í Grindavík, kom í heimahöfn á þriðjudagsmorgun eftir um viku úthald.

„Við fórum beint austur og vorum þar aðallega á Fætinum, Herðablaðinu, Reyðarfjarðardýpinu og hryggnum þar að snúast. Við kíktum líka aðeins út á Þórsbanka. Svo höfum við verið á Hvalbakshallinum og þetta hefur alls staðar komið vel út,“ segir Valur skipstjóri. Aflinn hafi verið ágætur.

„Við erum eiginlega bara með nóg. Þetta er aðallega þorskur og ýsa sem við erum með núna.“

Lélegt á grunnunum

Að sögn Vals gerði vitlaust veður á sunnudaginn. Áhöfnin hafi athugað með ufsa og byrjað á suðvesturhorninu á Mýrargrunni og þar á eftir á suðvesturhorninu á Síðugrunni. Það hafi verið rólegt eftir að þeir komu þangað vestur eftir.

„Það hefur ekkert verið á grunnunum, það hefur verið bara mjög lélegt hjá öllum sem hafa reynt og skoðað,“ segir Valur. Þar til á sunnudaginn hafi veðrið fyrir austan land hins vegar verið harla gott. „Og fínasta veiði þannig séð hjá okkur. Verið mjög gott í tvö trollin og nóg að gera. Þetta er svolítið blandaður fiskur.“

Þetta snýst allt

Farið hefur verið með Huldu í nokkra túra frá því að skipið kom til landsins í október.

„Við fórum svona prufutúra fyrir áramót, það voru tekin tvö höl og svo beint inn aftur og lagað það sem blasti við. Síðan voru farnir þrír túrar sem voru frá þremur upp í fimm daga,“ segir Valur. Eftir áramót hefur verið farið í einn fimm daga túr og síðan vikutúrinn sem lauk í gær.

„Það má segja að þetta hafi verið fimmti túrinn,“ segir Valur. Enn sé í raun verið að stilla hlutina af.

„Það þarf að fínpússa hlutina en heilt yfir þá er þetta allt að virka, þetta snýst allt,“ segir Valur. Vinnsla í skipi á borð við Huldu Björnsdóttur sé eiginlega orðin flæðilína.

Læra hvað virkar og hvað ekki

Valur Pétursson skipstjóri.
Valur Pétursson skipstjóri.

„Það er verið að fínstilla hvar er kveikt á hverju. Og það er verið að færa til nema og ýmislegt. Það er líka verið að forrita dálítið upp á nýtt en þetta eru engar tórframkvæmdir.“

Huldu Björnsdóttur var haldið aftur til veiða á þriðjudagskvöld. Áfram er haldið að stilla saman tæki og menn. „Það er bara að halda áfram að kýla á þetta og fá reynslu á hlutina. Þó að einhverjum sýnist eitthvað ekki vera eins og það á að vera getur vel verið að það eigi að vera þannig, við þurfum bara að læra á því að nota þetta og sjá hvort það virkar eða hvort það þurfi að breyta einhverju,“ segir Valur.

Gert við troll

Er skipið var á Síðugrunni á mánudag var verið að gera við troll. „Það fór í sundur splæs í toppvængnum og flettist aftur. Þetta er svolítil aðgerð, það er að minnsta kosti toppvængur, skver og fyrsta og önnur og jafnvel þriðja í yfirbyrði sem er rifið,“ segir Valur Pétursson.