Veiðar á ungál hafa verið stöðvaðar við strendur Englands og gildir veiðibann til febrúar á næsta ári. Gripið er til þessara aðgerða í því skyni að koma í veg fyrir að álastofninn deyi hreinlega út.
Ungálinn eða glerállinn, sem er ættaður úr Þanghafinu, er afar verðmætur sælkeramatur. Állinn var mjög algengur á Englandi en þar eins og annars staðar hefur stofninn hrunið. Talið er að fjöldi ála í evrópskum ám hafi minnkað um hvorki meira né minna en 95% síðasta áratug. Álastofninn hefur aldrei verið í viðlíka lægð frá því mælingar hófust.
Ástand stofnsins er talið það slæmt að ef ekki verði gripið til róttækra aðgerða gæti það leitt til þess að engir álar gangi í evrópskar ár og menn þurfi þá hugsanlega að horfast í augu við það að þessi fisktegund verði útdauð. Állinn lifir sem kunnugt er í fjölda ára og áratugi í evrópskum ám uns hann snýr til baka í Þanghafið þar sem hann fjölgar sér. Í Sussex á Englandi hafa umhverfisyfirvöld reynt að leggja álnum lið með því að búa til um 45 farvegi sem eru sérhannaðir til að állinn eigi greiða leið framhjá manngerðum hindrunum, svo sem stíflugörðum.
Heimild: www.fis.com