,,Þótt þokast hafi í samkomulagsátt í samningaviðræðunum um makrílinn á síðasta fundi ber ennþá mikið í milli. Mitt mat er það að ekki muni nást samningar um stjórn veiðanna fyrir þetta ár,” segir Friðrik J. Arngrímsson framkvæmdastjóri LÍÚ í samtali við Fiskifréttir en hann var í íslensku viðræðunefndinni í Osló í síðustu viku.
Í Fiskeribladet/Fiskaren í Noregi er haft eftir Johan Williams aðalsamningamanni Norðmanna að það vanti 10-20% upp á að deiluaðilar nái saman. Friðrik kveðst ekki skilja hvað átt sé við með því. Í blaðinu er ennfremur sagt að Williams hafi hrósað Íslandi sérstaklega fyrir að hafa dregið úr kröfum sínum. Þar er væntanlega vísað til þess sem kom fram í máli Tómasar Heiðars aðalsamningamanns Íslendinga að loknum fundinum að íslensk stjórnvöld væru reiðubúin að endurskoða kröfu sína um 16-17% hlutdeild í stofninum gegn því að íslensk skip fengju aðgang lögsögum Noregs og ESB til makrílveiða.