Nordic Kelp er að hefja tilraun með að rækta beltisþara í sjó í Patreksfirði í samvinnu við norska fyrirtækið Akvahub.

„Íslenski lagaramminn ekki kominn utan um þetta. Það er bara ekki til í íslenska lagabálkinum neitt varðandi þetta,“ segir Oddur Rúnarsson.

Hann rekur ásamt Víkingi Ólafssyni fyrirtækið Nordic Kelp sem um þessar mundir er að gera tilraun með þararækt í Patreksfirði.

Vestfjarðarstofa skýrði frá þessu verkefni á vef sínum. Þar kom fram að í vor hafi verið tekin móðurplanta af heilbrigðum beltisþara í Patreksfirði og send til Hollands til ræktunar. Gró af þeirri plöntu voru svo send aftur heim og línur síðan lagðar út í Patreksfirði fyrir stuttu þar sem vegfarendur geta nú séð belgina undir Raknahlíðinni.

Tilraunin er gerð í samstarfi við norska fyrirtækið Akvahub. Það voru Norðmennirnir sem höfðu samband við Nordic Kelp, en Akvahub er með sams konar tilraunverkefni í gangi í Noregi, Færeyjum og Grænlandi.

Horft til laxeldis

„Við stofnuðum þetta fyrirtæki 2018 og vorum að velta þessum hlutum fyrir okkur, og þá aðallega með það í huga að komast með þetta nálægt laxeldinu.“

Hann segir rannsóknir sýna að þari vaxi miklu hraðar í nálægð við laxeldi. Rannsóknir sýni líka að svonefnt IMTA kerfi, eða Integrated Multi Tropic Aaquaculture, virki sem hálfgert síukerfi á úrganginn frá laxeldinu.

„Þetta byggist upp á því að vera með skeldýrarækt, þararækt og síðan lindýr sem safnast í kringum kvíarnar. Við byrjuðum að sækja um þá í umhverfissjóð sjókvíaeldis og höfum gert síðastliðin ár án árangurs. En síðan duttum við niður á þetta norska fyrirtæki sem fékk styrk í þetta.“

IMTA-kerfið hefur verið nefnd fjölkerfarækt á íslensku og fleiri hafa verið að þreifa fyrir sér með slíkt á Vestfjörðum.

Ryður sér til rúms víða

Oddur segir þararækt vera að ryðja sér til rúms víða í Evrópu, þar á meðal í Skotlandi og víðar í Bretlandi. Hún er að aukast í Noregi og er einnig stunduð í Bandaríkjunum.

„Þetta verkefni snýst um að finna góð svæði i hverju landi fyrir sig, og nota sams konar búnað til þess að hægt verði að bera það saman. Það verður fylgst með þessu næstu tvö árin og athuga hvort við erum að glíma við sömu ógnanir, hvort það sé meiri vöxtur hér eða annars staðar, hvert næringarinnihald sjávarins er, og þess hátta. Þetta er bara svona föndur,“ segir Oddur.

Mikill kostnaður fylgir hins vegar þararækt í stórum stíl, og ekki ráðlegt að leggja út í slíkt nema lagaramminn sé til staðar. Meðan svo er ekki verður ekki hægt að gefa út nein leyfi og þar af leiðandi engan veginn forsvaranlegt að hefja neinar framkvæmdir.