Mikil óvissa ríkir um loðnuveiðar íslenskra skipa í vetur í kjölfar mælingar  Hafrannsóknastofnunar á veiðistofni loðnu. Allt stefnir í það að íslensk skip fái engan kvóta í loðnu fyrr en í fyrsta lagi eftir að ný mæling á loðnu liggur fyrir í upphafi næsta árs en menn eru vongóðir um að meira mælist þá, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.

Veiðistofn loðnu mældist 550 þúsund tonn og miðað við nýja aflareglu verður heildarkvóti 44 þúsund tonn. Samkvæmt samningi strandríkja eiga tæp 36 þúsund tonn að koma í hlut Íslands (81%), tæp 5 þúsund tonn fara til Grænlands (11%) og rúm 3 þúsund tonn til Noregs (8%).

Íslendingar eru með samning við Norðmenn um veiðar á þorski í Smugunni og við látum Norðmenn fá loðnu í staðinn, allt eftir því hvað þorskkvótinn er mikill. Væntanlega verða það um 35 þúsund tonn af loðnu að þessu sinni. Þá hafa Færeyingar fengið loðnu frá Íslendingum og fá þeir líklega rúm 2 þúsund tonn. Því er ljóst að miðað við 44 þúsund tonna heildarkvóta verður ekkert eftir handa íslenskum skipum.

Norsk og grænlensk skip hafa heimild til að veiða kvóta sinn, allan eða að hluta, í íslenskri lögsögu. Sú staða kemur því væntanlega upp að það verða eingöngu norsk og grænlensk skip sem veiða loðnu í lögsögu Íslands í upphafi vertíðar.

Sjá nánar umfjöllun í nýjustu Fiskifréttum.