Börkur NK kom með fyrsta loðnufarminn á vertíðinni til Neskaupstaðar sl. nótt. Aflinn var 1050 tonn og fékkst hann í 5 holum. Sturla Þórðarson skipstjóri sagði í samtali við heimasíðu Síldarvinnslunnar að í upphafi veiðiferðar hefði verið togað austan við Kolbeinseyjarhrygginn en í lokin norður af Langanesi.

Veðrið var hundleiðinlegt allan tímann og reyndar ekki alltaf hægt að vera við veiðar.

„Það sést nú ekki mikil loðna á þessum slóðum“, sagði Sturla,“en þarna eru þó blettir sem geta gefið þokkalegan afla. Það er enginn kraftur í veiðunum en loðnan sem fæst virðist vera ágæt.“

Polar Amaroq er á landleið með góðan loðnuafla og mun landa í fiskiðjuver Síldarvinnslunnar þegar löndun úr Berki er lokið.