Strandveiðar með breyttu fyrirkomulagi hefjast 5. maí. Örn Pálsson framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, segir sumarið verða ákveðna tilraun. Alls 739 af um 900 sem sóttu um höfðu í hádeginu í gær fengið afgreidd leyfi til strandveiða.
„Á síðustu fjórum árum hefur þetta verið í hálfgerðri spennitreyju vegna þess að það var ljóst að veiðiheimildirnar væru ekki nægar til að uppfylla lengd veiðileyfisins, sem sagt út ágúst. En ég tel að núna þegar það eru tryggðir 48 dagar að þetta verði miklu rólegra og sóknin færist á það stig sem hún var 2018 og 2019 og að það verði kannski rúmur helmingur af dögunum nýttur,“ segir Örn.
Það að hafa 48 daga, eða tólf daga í mánuði, felur að sögn Arnar í sér það stóra skref að tryggja fullt jafnræði milli landshluta.
„Fyrir 2018 var þetta orðið þannig að það voru bara örfáir dagar í upphafi hvers mánaðar og ægilegur barningur og samkeppni um að ná því. Þá hallaði mjög á Vestfirði og Vesturland. Þegar það breyttist átti að tryggja alltaf nægar veiðiheimildir til þess að hafa 48 daga og það gekk eftir fyrstu tvö árin. En síðustu þrjú ár hefur verið lokað um miðjan júlí og þá hefur það komið niður á Norðaustur- og Austurlandi,“ segir Örn og bendir á að ekki sé heimilt að færa daga milli mánaða.
Allir verði ekki alla daga
„Þú færð bara tólf daga sem þú getur fiskað í hverjum mánuði og mátt einungis vera mánudaga til og með fimmtudaga. Ef þú nærð kannski ekki nema sjö dögum þá færðu ekkert fimm daga aukalega næsta mánuð,“ undirstrikar Örn sem kveðst svo sem ekki vita hvort allir þessir bátar ætli sér að vera allt sumarið.
„Ég reikna með að menn taki kannski fyrstu tvo mánuðina og taki sér svo eitthvert frí. Það er langt í frá að sóknin verði eins og verið er að setja fram hjá hinum hagsmunasamtökunum og í ráðuneytinu að allir bátarnir nái 48 dögum og að allir bátarnir ná að fiska 774 kíló af þorski á dag. Þetta er algjörlega óraunhæft og ég skil ekkert í ráðuneytinu að leggja þetta svona upp þegar var verið að tala um þetta i ríkisstjórninni,“ segir Örn sem kveður margt takmarka sókn strandveiðibáta.
„Það er til dæmis bara einn í áhöfn og ef hann er frá þá fer báturinn ekki á sjó. Og ef það er hvítt í öldu þá fara fullt af þessum bátum ekkert á sjó. Síðan er takmörkun á 774 kíló af þorski á dag. Það er ekkert gefið að ná því á hverjum degi,“ segir Örn.
Viðbót njörvuð niður í reglugerð
Undanfarin sumur hefur sá kvóti sem ætlaður er til strandveiða klárast í júlí, jafnvel þótt tveimur þúsund tonnum hafi verið bætt við upphafleg tíu þúsund tonn eins og í fyrra. Bent hefur verið á að þá þurfi vísast að taka heimildir frá öðrum ef halda eigi strandveiðunum áfram inn í ágúst eins og nú er gert ráð fyrir.
„Ég er á því að það muni gjörbreytast sóknin þannig að þetta verður ekki endilega uppurið um miðjan júlí eins og verið hefur,“ svarar Örn spurður um þetta. Ríkisstjórnin hafi ákveðið að fara ekki í lagabreytingu. „Þá er samkvæmt reglugerð tíu þúsund tonn sem eru ætluð til strand veiða. Og þar sem er tryggt að það verði 48 dagar mun aldrei virkjast þetta lagaákvæði um að Fiskistofu sé skylt að stöðva veiðar þegar afli hefur náð tíu þúsund tonnum vegna þess að það mun alltaf verða bætt við, alveg út ágústmánuð.“
Örn ítrekar á að þessu ári verði engin skerðing hjá ein um né neinum. Það sé búið að njörva það niður í reglugerðinni að það verði bætt við.
Sjö þúsund tonn skilin eftir
„Og ég hef bent á það að strand veiðarnar og línuívilnun eru einu kerfin í þessu til að tryggja það að allur þorskur sem eru veittar heimildir fyrir náist á hverju einasta ári. Á síðastliðnum sjö fiskveiðiár um þá skoðaði ég hversu miklar heimildir voru í upphafi fiskveiðiársins og síðan hversu mikill aflinn var þegar því lauk. Að meðaltali eru það sjö þús und tonn sem eru skilin eftir á hverju ári. Þannig að ég óttast ekkert svona lagað,“ segir Örn. Þessi umræða eigi eftir að fara fram.
„Það eru ýmsar smugur í kerfinu sem gera það að verkum að menn sjá sér kannski frekar hag í því að flytja á milli ára eða annað slíkt. Þá er það ekki þannig að ef það er flutt eitthvað á milli ára að það sé dregið frá á næsta ári af útgefnum veiðiheimildum,“ segir Örn.
Síðan eru það þessi fimm prósent sem þú getur látið í VS-afla. Í þorskinum voru í fyrra um fjögur þúsund tonn sem komu í gegnum það kerfi. Ég hef ekki séð það dregið frá nokkrum aðilum. Það er bara viðbót í kerfinu. Þannig að þetta er ekki þannig að það fari allt á annan endann þó að fari eitthvað meira en tíu þúsund tonn í strandveiðar,“ segir Örn áfram.
Svar við kalli þjóðarinnar
Gríðarlegir hagsmunir eru undir í því að sögn Arnar að tryggja þessa 48 daga. „Það sást best á úrslitum kosning anna, það var flokkur sem hafði þetta algjörlega á stefnu skránni sinni og hann hlaut mikið fylgi,“ segir hann og minnir á skoðanakönnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands hafi gert í mars 2023 að beiðni þáverandi matvæla ráðherra. „Niðurstaða hennar var að 72 prósent landsmanna vildu auka við veiðiheimildir strandveiða. Þannig að það er líka verið að svara kalli þjóðar innar með því að hafa þetta á þennan hátt.“
Að sögn Arnar eru strandveiðimenn ánægðir og mikill hugur meðal þeirra. „Það liggur gríðarlega vel á mannskapnum og það eru allir á fleygiferð að gera allt klárt,“ segir Örn sem vonast eftir góðu veðri í sumar, góðri fiskgengd og góðu verði á fiskinum. „Þá verður þetta allt saman í góðu. Ég finn að það er svo mikil og góð samheldni í hópnum þannig að ég er mjög bjartsýnn á þetta sumar.“