Lokið er í London strandríkjafundum um norsk-íslenska síld og kolmunna vegna veiðistjórnunar ársins 2015, að því er fram kemur á vef sjávarútvegsráðuneytisins. Engin niðurstaða varð um skiptingu kvóta í þessum tegundum milli strandríkja en frekari viðræður eru fyrirhugaðar á næstunni.

Í desember náðist samkomulag um heildarafla í báðum stofnum. Í frétt ráðuneytisins segir að ólíklegt verði að teljast að það haldi þar sem Norðmenn hafi þegar gefið út kolmunnakvóta fyrir árið 2015 sem sé umtalsvert hærri en sem nemur hlutdeild þeirra skv. kolmunnasamningi frá 2006.

Í norsk-íslensku síldinni muni Færeyingar, líkt og tvö undanfarin ár, gefa út hærri kvóta en nemur þeirra hlutdeild skv. síldarsamningi frá 2007. Sjá nánar frétt á vef ráðuneytisins HÉR .