Engin loðna hefur veiðst á miðunum fyrir norðan land frá því í gær. Sturla Þórðarson, skipstjóri á Berki NK, sagði í hádegisfréttum RÚV að skipin hefðu leitað vestur að Kolbeinseyjarhrygg og austur fyrir land, en ekkert séð.
Fyrsta loðna vertíðarinnar kom til Þórshafnar í gærkvöld, þegar Heimaey VE landaði þar tæpum 1300 tonnum. Skömmu síðar landaði Aðalsteinn Jónsson um 1200 tonnum á Eskifirði. Aflinn fékkst um 50 mílur norður af Hraunhafnartanga og þetta eru einu loðnufarmarnir sem komnir eru á land.
Siggeir Stefánsson, framleiðslustjóri Ísfélagsins á Þórshöfn, sagði í viðtali við RÚV að stærstur hluti loðnunnar hefði farið í bræðslu. Helstu markaðir fyrir frysta loðnu eru í Rússlandi og Úkraínu og hefur gengisfelling rúblunnar og slæmt efnahagsástand valdið óvissu á loðnumörkuðum. „Kaupgetan í þessum löndum er ekki mikil núna, sem gerir það að verkum að þeir geta ekki borgað samkeppnishæft verð," segir Siggeir.