Slæmt veður í Barentshafi hefur valdið því að fáir norskir bátar hafa farið þangað til að leita að loðnu. Spáð er betra veðri og bátar sem hafa tekið sinn skammt af Íslandsloðnu hyggja nú á loðnveiðar í Barentshafi, að því er fram kemur á vef norska Síldarsamlagsins.
Einn bátur hefur verið að leita loðnu í Barentshafi en hefur lítið getað athafnað sig vegna veðurs. Menn búast þó við því að loðnan finnist á allra næstu dögum.
Norskum skipum hefur hins vegar gengið vel að veiða loðnu við Ísland. Alls hafa 13 skip veitt loðnu hér, samtals um 6.650 tonn. Fyrsta skipið tilkynnti um afla síðastliðinn laugardag. Loðnan er mjög stór eins og fram hefur komið, 35 til 39 stykki í kílói, og hefur hún öll farið í manneldisvinnslu í Noregi.