„Við höfum ekki fengið neina loðnu í að minnsta kosti vikutíma þrátt fyrir ítarlega leit bæði úti fyrir norðan- og vestanverðu landinu,“ sagði Jón Axelsson skipstjóri á Álsey VE þegar Fiskifréttir höfðu samband við hann um klukkan 16 í dag. Þá höfðu sjö loðnuskip raðað sér upp til skipulagðrar leitar á svæðinu úti af Snæfellsnesi.
„Það er búið að leita mjög víða að undanförnu. Auk Vestfjarðamiða hefur verið farið norður fyrir land, í Húnaflóa, Eyjafjörð, Skjálfanda og Axarfjörð og út að Grímsey. Í dag hefur verið leitað á Breiðafirði og með kvöldinu förum við í Faxaflóann. Það hefur ekkert sést, ekki einu sinni karlsíli,“ sagði Jón.
- Er þá ekki bráðum að verða fullreynt?
„Einhverjir eru sjálfsagt hættir eða við það að hætta, en við eigum einhvern kvóta eftir og viljum reyna til þrautar,“ sagði Jón Axelsson.