,,Ástandið er óvenjulegt en loðnan á örugglega eftir að skila sér upp á grunnin. Hvar það verður og hvenær veit hins vegar enginn. Það þarf ekki að fara mörg ár aftur í tímann til að finna dæmi um að loðnan gaf sig ekki til fyrr en í lok janúar eða byrjun febrúar og það þýðir því ekkert annað en að vera bjartsýnn.”
Þetta segir Róbert Axelsson, sem var skipstjóri á Faxa RE sem fór ásamt Ingunni AK í loðnuleitarleiðangur nú í vikunni en skipin komu til hafnar á Akranesi á föstudag.
,,Við byrjuðum leitina á Vopnafjarðargrunni og héldum síðan vestur með Norðurlandi fyrir utan trollhólfið sem liggur með kantinum. Við leituðum svo í kantinum vestan við Kolbeinseyjarhrygginn og allt suður í Víkurál. Hvergi varð vart við loðnu í veiðanlegu magni þannig að ekki var ástæða til að setja veiðarfæri í sjó að þessu sinni,” segir Róbert í samtali á heimasíðu HB Ganda.
Norsk loðnuveiðiskip hafa að undanförnu leitað að loðnu úti fyrir Austfjörðum en án árangurs. Bræla hefur reyndar verið á miðunum síðustu daga þannig að norsku skipin eru nú flest í höfn á Seyðisfirði.
,,Þetta er vissulega óhefðbundið ástand en maður þarf þó ekki að fara mörg ár aftur í tímann til að finna sambærileg dæmi. Mig minnir að á vertíðinni 2007 hafi loðnan ekki skilað sér í veiðanlegu magni fyrr en við Vestmannaeyjar í lok janúar eða byrjun febrúar og árið 2001 fannst hún loksins í Víkurálnum ef ég man rétt,” segir Róbert en hann segir erfitt að líkja veiðunum, eins og þær eru stundaðar nú, við fyrri tíma.
,,Það er ekkert svo langt síðan menn fóru að ná árangri á loðnuveiðum með flottrolli í desember og byrjun janúar en hér áður fyrr var loðnan aðeins veidd í nætur. Hafrannsóknaskipið Árni Friðriksson náði góðri mælingu sl. haust og mín skoðun er sú að loðnan sé enn mjög dreifð og að það sé bara spurning um tíma hvenær hún þéttir sig og gengur upp á grunnin,” sagði Róbert Axelsson.